145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:44]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég fagna því sem kom fram í svari ráðherrans áðan við spurningu frá hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur um að hann hefði útvegað peninga til að stytta biðlista sem urðu til vegna verkfallanna. Það er nauðsynlegt. Ég vil viðra þann ótta minn að hægt og sígandi sé að verða hér tvöfalt heilbrigðiskerfi, annars vegar fyrir þá sem hafa peninga og hins vegar fyrir hina sem nýta sér hið opinbera heilbrigðiskerfi sem ég tel vera einn af hornsteinum velferðar hér á landi. Mig langar til að spyrja ráðherrann hvort hann sé tilbúinn í þá baráttu að standa vörð um það að hér verði ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi. Mér sýnist hann hafa gert sitt með því að útvega þessa peninga og ég fagna því sérstaklega.

Ég fagna líka þeirri áherslu sem á að leggja á heilsugæsluna. Það er löngu tímabært. Þetta hefur verið reynt og ekki gengið sem skyldi. Nú eru settir peningar þarna inn og það er gott, en það þarf líka að hafa í huga þegar menn semja, vegna þess að þetta spilar saman við hina sjálfstætt starfandi lækna og samningana við þá, að læknar skapa sjálfir eftirspurnina eftir starfi sínu. Það er kallað freistnivandi. Læknar eru náttúrlega besta fólk en þeir eru ekkert heilagri en við hin (Forseti hringir.) og það þarf að horfast í augu við það. Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann sé ekki (Forseti hringir.) tilbúinn að gera það.