145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að það er oft betra að ræða hlutina, takast á og tjá áhyggjur sínar og ræða opinskátt um það sem við teljum að geti farið með einhverjum öðrum hætti en við ætlum. Í ljósi hugleiðinga hv. þingmanns hér áðan þá er alveg augljóst, af því að hér áðan var rætt um tvöfalt heilbrigðiskerfi, að við munum þurfa að standa í töluverðu stríði til að standa vörð um þessa grunnhugsun svo að það skapist ekki sá veruleiki. Og til að geta unnið sem best gegn þeim breytingum þurfum við að ræða saman og ýta hvert við öðru um það sem betur má fara.

Varðandi jáeindaskannann þá er veruleikinn sá að vissulega þarf að byggja yfir tækið. Það á ekki að vera nokkur fyrirstaða í því. Við erum að vinna með Landspítalanum að því að engar tafir verði okkar megin í tengslum við þá stórkostlegu gjöf sem Íslensk erfðagreining færði þjóðinni. Þetta er grundvallaratriði. Þetta er gríðarlega mikil gjöf á alla lund og ber miklum velvilja og stórhug vitni. Þannig eigum við að taka á móti henni og gera allt sem við getum til að þetta gangi sem hraðast fyrir sig og engin fyrirstaða verði þó að við þurfum að búa til einhverja smotterísfjármuni til að hýsa tækið. Það get ég sagt hér í þessum sal við hæstv. virðulegan forseta að áætlanir ráðuneytisins ganga ekki út á neitt annað en að þetta eigi að ganga þrautalaust fyrir sig.