145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:52]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það eru svo mörg mál í þessu ráðuneyti sem ég mundi vilja spyrja út í en til að stikla á stóru vil ég byrja á að segja að mér finnst það mjög jákvætt sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu sem snýr að eflingu heilsugæslunnar. Ég hef aðeins fengið innsýn í verkefnið Betri heilbrigðisþjónusta sem mér finnst lofa mjög góðu og að efla heimahjúkrun. Þetta er bara heilbrigð skynsemi, við getum ekki byggt yfir alla aldraða og það kostar langtum minna að þjónusta fólk heima hjá sér og í mörgum tilfellum er það í rauninni miklu betra fyrir þá sem þiggja þjónustuna að vera ekki inni á stofnun.

Mér finnst hér vera tekin mörg skref í rétta átt og ég fagna því. Mér finnst við þurfa að keyra þetta svolítið hratt áfram af því að við hefðum í raun átt að vera búin að gera margt af þessu fyrir tíu, tuttugu árum.

Varðandi heilsugæsluna er talað um stöðu sálfræðinga. Ég velti því fyrir mér hvort skilja megi það þannig að þær stöður verði á heilsugæslustöðvum úti um allt land. Síðan er annað sem mér finnst spurning, það er hvort ekki sé hægt að nýta fleiri stéttir. Þá er ég til dæmis að hugsa um næringarfræðinga. Ég held að það sé mjög þarft og brýnt að aðstoða marga og veita ráðgjöf um rétta næringu og læknar eru ekki sérfræðingar í því. Það gæti verið sparnaður í því til lengri tíma því að mjög mikið af sjúkdómum og lyfjanotkun í dag eru vegna lífsstílssjúkdóma sem beinlínis tengjast slæmri næringu og hreyfingarleysi.

Svo er það hlutverk hjúkrunarfræðinga. Ég sé hér að ákveðið hefur verið að koma á fót sérnámi í heilsugæsluhjúkrun við Háskólann á Akureyri, sem mér líst mjög vel á. Ég átta mig ekki á því hvort það er inni í fjárveitingum til skólans, ég sá það ekki, eða hvort þetta er lengra fram í tímann, en það mundi til dæmis vera sparnaður í því að nýta hjúkrunarfræðinga meira. Ég veit að sums staðar geta hjúkrunarfræðingar til dæmis ávísað getnaðarvörn og annað slíkt, í skanna og þar fram eftir götunum, þannig að það þurfa ekki allir að fara til læknis.

Þetta eru spurningar og skoðanir allt í bland en ég vil sem sagt spyrja um sálfræðingastöðurnar, hvort þær fari á allar heilsugæslustöðvar, hvort við séum að stíga þau skref að vera með hjúkrunarfræðinga og jafnvel næringarfræðinga og fleiri fagstéttir í heilsugæslunni og hvort við munum kannski sjá einhvers konar tilvísunarkerfi í framtíðinni til að beina fólki inn í heilsugæsluna. Ég veit að það getur verið erfitt núna vegna þess að heilsugæslan annar kannski ekki eftirspurninni en til lengri tíma litið hlýtur það að vera markmiðið að fólki byrji í heilsugæslunni en fari ekki beint til sérfræðilæknis með tilheyrandi kostnaði.