145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka góð svör hæstv. ráðherra. Það er rétt sem komið hefur fram hér í dag að gríðarleg áhersla er lögð á Landspítalann og kannski ekki skrýtið þegar maður horfir á fjárveitinguna sem fer í þann einstaka lið. Maður hlýtur eiginlega að vona að hluti af þessu sé vegna óhagræðis, þetta eru margar byggingar, og að við munum einhvern tímann í framtíðinni ná að draga úr því óhagræði og spara, vegna þess að þetta eru gríðarlegar upphæðir. Mér finnst hálfpartinn eins og enginn nái utan um reksturinn ef ég á að segja alveg eins og er. Ég velti því fyrir mér hvort ríkisendurskoðun þyrfti ekki að gera viðamikla úttekt. Ég sit í fjárlaganefnd og mér finnst ég ekki vita nóg um þennan rekstur og mér finnst erfitt að fá svör, enda erum við að tala um hátt í 50 milljarða. Það er ekki lítið.

Það er annað sem mér finnst líka vera áhugavert og það er lyfjanotkun og lyfjakostnaður, hann er gríðarlega hár. Hæstv. ráðherra koma inn á það áðan, sem mér fannst mjög jákvætt, að við getum lækkað þann kostnað með því að komast inn í útboð með Norðurlöndunum. En við notum gríðarlega mikið af lyfjum á Íslandi, í samanburði við önnur lönd. Danir hafa áhyggjur af sinni lyfjanotkun en þegar kemur að svefnlyfjum, þunglyndislyfjum og fleiri lyfjaflokkum notum við frekar mikið. Sumir geta réttlætt það með því að segja að við séum þá að veita góða þjónustu en ég hef áhyggjur af þessu. Ég átta mig ekki á því hvort það sé eitthvað í gangi sem við náum ekki að fylgjast með. Það getur verið skaðlegt að ávísa of miklu af lyfjum, það er ekki gott. Ég velti fyrir mér hvort við séum að reyna að ná þessum kostnaði niður og ná lyfjanotkuninni niður, ekki vegna þess að við viljum skerða lífsgæði fólks heldur getur það í sumum tilfellum þýtt aukin lífsgæði að losna af lyfi.