145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:18]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Nú þarf ég að tala hratt. Fyrst varðandi rannsóknirnar. Framlag til rannsókna, „satellite account“ — íslenska heitið hefur dottið úr mér — sem skorið var niður af fyrrverandi ríkisstjórn árið 2009, var endurvakið árið 2013, þannig að þær rannsóknir eru í gangi.

Varðandi rannsóknir almennt deili ég þeirri skoðun með hv. þingmanni að þær þurfi að auka. Einnig þau atriði sem hv. þingmaður spurði um áðan varðandi kynningarmál. Ég ítreka að ekki hefur verið tekin um það ákvörðun að hætta þessu einstaka verkefni.

Varðandi þetta og varðandi fluggáttirnar og dreifingu ferðamanna, rannsóknir og öll þessi stóru mál get ég upplýst, sem menn vita vegna þess að það hefur verið kynnt á vinnslustigi í öllum þingflokkum á þinginu, að við erum í mikilli stefnumótunarvinnu með Samtökum ferðaþjónustunnar og fleiri aðilum sem kynnt verður öðrum hvorum megin við mánaðamótin. Þar koma í ljós áherslur okkar og stefna og áhersla á nauðsyn á samhæfingu og samræmingu, að við þurfum að vinna saman vegna þess að ferðaþjónustan er þannig grein að hún er út um allt í stjórnkerfinu, milli stjórnsýslustiga og milli mismunandi atvinnugreina. Það verður kynnt á seinni stigum.

En varðandi framkvæmdasjóðinn er það auðvitað alvarlegt mál þegar við bregðumst við og leggjum til aukna fjármuni með mjög skýrum hætti eftir umsóknum og áætlunum sem lagðar eru fyrir, að við skulum sjá að verkefni fari ekki af stað, að þeim sé ekki lokið af ýmsum ástæðum. Ég vil taka það sérstaklega fram að við munum fara yfir það og við erum að taka á því hvernig við getum bætt verklagið. Þar koma margir til, m.a. skipulagsvald sveitarfélaganna. Það þarf að tryggja að þau mál séu í betri farvegi. (Forseti hringir.)

Við munum tryggja fjármuni til uppbyggingar á ferðamannastöðum, ekki hvað síst hvað varðar ríkisstaðina sem við berum beina ábyrgð á. (Forseti hringir.) En við viljum ekki bara setja puttann upp í vindinn og setja einhverja tölu inn í fjárlagafrumvarpið heldur viljum við undirbyggja hana með sem bestum hætti í meðförum þingsins.