145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:35]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og þakkir. Ég þakka honum á móti fyrir aðstoðin við að koma niðurgreiðslumálunum í lög, vegna þess að hann var dyggur stuðningsmaður þess máls og beitti sér fyrir því með öðrum þingmönnum að það yrði klárað með farsælum hætti.

Varðandi afhendingaröryggi á Vestfjörðum tek ég undir það með hv. þingmanni að þar er mjög brýnt að gera úrbætur. Það er þess vegna sem þar hefur verið að störfum nefnd um nokkurra ára skeið, Vestfjarðanefndin svokallaða undir forustu Guðna Jóhannessonar orkumálastjóra, þar sem heimamenn, raforkufyrirtækin, atvinnulífið og fleiri aðilar koma saman. Nefndin hefur unnið, ég vil segja þrekvirki og komið með talsvert miklar úrbætur nú þegar. Ég nefni nýtt tengivirki í Bolungarvík og fleiri hluti sem hefur verið unnið að, en verkefninu er sannarlega ekki lokið. Nefndin mun halda áfram störfum og það verkefni sem þingmaðurinn nefndi hvað varðar Hvalárvirkjun og tengipunktinn er eitt af verkefnum nefndarinnar.

Því til viðbótar vil ég nefna að við höfum verið að skoða raforkulögin, sérstaklega 12. gr. raforkulaga um hið svokallaða kerfisframlag vegna þess að það er í rauninni það sem er þröskuldurinn þarna, að kerfisframlag fyrirtækjanna sem mundu nýta sér þessa orku er í mörgum tilvikum óyfirstíganlegt. Við sjáum það á þessu svæði. Annað dæmi er Þórshöfn á Langanesi þar sem kerfisframlag til að rafvæða bræðslur er talsvert hátt. Við erum að skoða þetta í almennu tilliti og ég vonast til að geta komið fram með tillögu seinna í vetur og þá er gott að vita af góðum stuðningsmanni að því máli í þinginu.