145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:39]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Herra forseti. Afhendingaröryggi raforku og styrking raforkukerfisins, sérstaklega dreifikerfisins, er mér mjög mikið áhugamál. Það er þess vegna sem þær lagabreytingar sem ég lagði fram og við fengum samþykktar á þinginu síðastliðinn vetur, hvað varðar breytingar á framkvæmdinni við kerfisáætlun, og þingsályktunartillagan varðandi loftlínur og jarðstrengi voru lykilmál til þess að unnt væri að gera úrbætur á þessu kerfi vegna þess að það hefur dregist í allt of mörg ár. Ýmis kerfisvandamál hafa leitt til þess að þessar framkvæmdir eru mjög tímafrekar. Nú höfum við bætt úr því.

Ég deili áhyggjum Landsnets sem hefur í drögum sínum að kerfisáætlun látið í ljós áhyggjur af því að ef ekki verði farið í umtalsverðar styrkingar á raforkukerfinu — og þar eru Vestfirðir sérstaklega nefndir — þá munum við lenda í miklum vandræðum innan ekki svo langs tíma. Þetta er eitt af áherslumálunum sem við munum beita okkur fyrir á næstu missirum og fara vel yfir þessi mál, bæði með Landsneti og raforkuframleiðandanum. Svo er hinn endinn á spýtunni sá að við þurfum að koma málum þannig fyrir að við getum komið virkjunarframkvæmdum af stað. Við þurfum að einbeita okkur að því að losa um þann hnút sem kominn er á rammaáætlun með því að taka það mál og færa í betri farveg.

Allt hangir þetta saman. Markmiðið er að tryggja dreifða búsetu. Við höfum stigið stór skref hvað það varðar með húshituninni og jöfnun dreifingarkostnaðar og þegar (Forseti hringir.) því er lokið höldum við áfram með verkefnið.