145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:47]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka svarið. Mig langar að taka undir með ráðherra. Það var umræða hérna um markaðssetningu, að við værum að setja peninga í markaðssetningu á Íslandi. Ég er eiginlega þar að við séum kominn á þann stað að við ættum frekar að setja pening í að taka vel á móti fólkinu sem kemur hingað. Ef við viljum fá það til að dvelja lengur hlýtur markmiðið að vera að því líði vel. Mér finnst oft í markaðssetningu menn vera að horfa of langt í staðinn fyrir að hugsa: Viðskiptavinur sem er ánægður kemur aftur og segir öllum frá því. Ef maður kemst ekki á salerni á Íslandi, vegna þess að við höfum ekki einu sinni burði til þess að tryggja að fólk komist á salerni eða fái þá grunnþjónustu sem hefur mikið verið í fjölmiðlum t.d. í sumar, þá finnst mér að við eigum frekar að setja peningana í það en ekki endilega að halda áfram í einhverri massífri markaðssetningu. Þótt hún þurfi kannski alveg að vera til staðar held ég að markaðssetningin sem við fáum sé til dæmis þær kvikmyndir sem eru teknar upp hér á landi, ekki endilega einhverjar herferðir sem auglýsingastofur búa til þótt þær geti vissulega þjónað sínum tilgangi. Ég vildi bara hafa sagt það.

Það var svo sem komið inn á það, ég var með spurningu um græna hagkerfið. Það er jákvætt að sjá að verið er að auka í nýsköpun eða rannsóknarsjóði en það er kannski eins og með Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, þangað var minnkað fjármagn á fjárlögum 2014 og svo farið að auka í aðeins aftur. Þá veltir maður einmitt fyrir sér: Er ekki betri sígandi lukka og svipaðar upphæðir í staðinn fyrir að allt í einu eitt árið er dregið svo mikið saman í niðurskurðarfrumvarpinu 2014? Það getur haft áhrif á greinina. Ég fagna því að verið sé að bæta í núna.