145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:58]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessi svör. Ég ætla að leggja áherslu á það hér að miklu máli skiptir að það liggi fyrir sem fyrst hvernig þessu verði háttað til lengri tíma einmitt út af góðu samstarfi milli opinberra aðila og einkaaðila. Það er ekkert auðvelt að halda því við þegar vel gengur, það er í raun enn meiri áskorun en ella þegar vel gengur að halda þessu góða sambandi við. Þess vegna skiptir máli að menn reyni að horfa til langs tíma í sameiningu.

Ég er ósammála hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur um að hugsanlega ættum við frekar að setja peningana núna í uppbyggingu innan lands, vegna þess að ef við ætlum að festa þessa atvinnugrein í sessi sem einhvern stærsta gjaldeyrisöflunarpóst okkar þá verðum við að gera hvort tveggja. Það er ekki hægt að hugsa: Nú ætlum við að sleppa markaðssókninni og fara frekar í eitthvað annað. Við verðum að gera hvort tveggja og þess vegna verður að koma útflæðinu á fjármunum í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í lag og ef það þarf einhverja lagabreytingu til þá verðum við bara að gera það. Síðan verðum við að halda áfram markaðssókninni. Það er ekkert gefið í þessu, þetta er stöðug vinna og síðan er það spurning hvaða áherslu maður leggur í henni. Áður en við hófum að setja saman fjármuni í einn pott, fjármuni hins opinbera og fjármuni einkageirans, þá var það þannig að ríkið lét út krónu á móti krónu til einstakra aðila í markaðssókn og það nýttist bara svo illa. Það nýtist miklu betur ef þetta er heildstætt, slagkrafturinn verður meiri og það er þess vegna sem við viljum leggja svona mikla áherslu á að frekar verði haldið áfram á þeirri braut en að fara til baka til þess tíma.