145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:00]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Aftur er ég sammála hv. þingmanni og ég tek fyllilega undir það að við viljum ekki fara til baka til þess tíma þegar ríkið setti verkefni til einstakra aðila af því að við getum það einfaldlega ekki lengur. Þetta er orðin miklu stærri atvinnugrein en svo, það væri ekki hægt að velja samstarfsaðila nema með handahófskenndum hætti. Það er ekki í boði að fara þá leið.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um að við verðum að gera hvort tveggja. Þetta er mjög mikilvæg grein. Ég held áfram að tala eins og véfrétt um stefnumótunina, sem ég er mjög áhugasöm um, og hlakka til þegar við getum farið að taka umræðu um hana því að málið snýst um að við getum haldið öllum hinum fjölmörgu boltum á lofti í einu og að við skjótum á sama markið, svo við tökum nú boltalíkinguna alla leið.

Mig langar að hnykkja aðeins á dreifingu ferðamanna og gáttunum, af því að ég var komin fram yfir tímann áðan. Ef okkur tækist að taka brot af þeirri traffík sem fer í gegnum Keflavíkurflugvöll yfir á aðra flugvelli þá nást nefnilega nokkur markmið, það eru margir boltar, nokkur markmið í því. Við dreifum ferðamönnunum meira um landið vegna þess að rannsóknir sýna að þeir sem lenda í Keflavík dvelja lengur hér fyrir sunnan en á stöðum sem eru fjærst flugvöllunum. Innviðirnir og fjárfestingin sem þar er og hefur verið mikil á síðustu árum nýtist þar af leiðandi ekki eins vel, þar eru færri gistinætur og minni tekjur. Ég vonast til að nefndin sé búin að setja það allt inn í skjalið þannig að við fáum fram kostina og gallana og hvað það kostar og hvort það er forsvaranlegt fyrir hið opinbera að verja fjármunum til þessa málaflokks, vegna þess að það mun koma okkur til góða í heildarsamhenginu.