145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:04]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það er rétt munað hjá hv. þingmanni að þetta var eitt af okkar fyrstu verkum. Nei, ég tel ekki að það hafi verið mistök, þvert á móti. Til að rifja upp forsögu þess máls þá var lagt fyrst til af þáverandi ríkisstjórn í fjárlagafrumvarpi í september að færa gistinguna úr neðra þrepi upp í efra þrep, sem sagt að hækka upp í 25,5% úr 7%. Þetta átti að gerast með engum fyrirvara og var gagnrýnt mjög og við tókum þátt í þeirri gagnrýni vegna fyrirvarans og líka vegna þess að þá værum við að setja þá þjónustu, gistingu, í hæstu hæðir, og við erum að bera okkur saman alþjóðlega. Það er ekki hótelið í Keflavík að keppa við hótelið á Akureyri heldur erum við að keppa við önnur lönd. Þá var það niðurstaða þáverandi ríkisstjórnar að setja þetta þriðja þrep á. Við gagnrýndum það líka vegna þess að það skapar aukið flækjustig sem gengur gegn stefnu núverandi ríkisstjórnar og þess vegna drógum við það til baka. Við sjáum nú þegar í ferðaþjónustu og í öðrum greinum talsvert um það að þegar kerfið er orðið of flókið þá fara menn að selja pakka. Það voru í rauninni fjögur þrep í gangi; gisting, veitingar, áfengi og afþreying, sem væri núll, þannig að kerfið var orðið allt of flókið.

Þær tölur sem hv. þingmaður nefnir um tekjur, ég held að þær séu stórlega ofmetnar vegna þess að þær hefðu aldrei skilað sér með þessum hætti því að menn hefðu farið að fiffa það til. Svo til viðbótar er algjörlega óvíst hvort þetta hefði nokkurn tíma farið í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þetta átti ekkert að fara þangað, þetta átti að fara í ríkissjóð. Það var tekjuöflunarleið sem var ekki eyrnamerkt Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og er allsendis óvíst hvernig farið hefði verið með þá fjármuni. Hins vegar þarf, og ég mun fara betur yfir það í minni seinni ræðu, að tryggja eins og hér hefur komið fram í umræðunni fyrirsjáanleika í fjármögnuninni og það er það sem við erum að vinna að.