145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:06]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Vissulega gat það kannski orðið flókið en eins og ég man þetta voru ferðaþjónustuaðilar algerlega búnir að gera ráð fyrir þessu í verðskrám sínum fyrir árið, þannig að þegar það var dregið til baka þá held ég að þeir hafi verið þeir einu sem græddu á þessu. En auðvitað gat þetta orðið flókið og annað þar fram eftir götunum. Náttúrupassinn var kannski ekki heldur alveg það auðveldasta sem átti að fara í gang á Íslandi miðað við þá umræðu og hvernig það var útfært, enda dó hann drottni sínum. Ég tek alveg mark á svörum ráðherrans en ég er ekki sammála henni. Ég held að ríkisstjórninni hefði verið í lófa lagið að láta þessa hækkun ganga eftir og eyrnamerkja hana ferðaþjónustunni enda kannski ekki vanþörf á að bæta í þar.

Ég held, við getum verið ósammála um það, að þetta hafi verið mistök og ríkissjóður, og sérstaklega ferðamannaiðnaðurinn, hefði aldeilis þurft á þeim peningum að halda. Við sjáum hvernig ástandið er í dag.