145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um það, ég og hv. þm. Árni Páll Árnason, að hafrannsóknir eru mjög mikilvægar. Það hefur sýnt sig að sú stefna sem við höfum keyrt á um langt árabil, að nýta stofna okkar með sjálfbærum hætti og geta vottað þá, er lykilatriði í markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum. Það er vaxandi sókn kaupenda í að menn votti ekki bara einstaka stofna heldur einnig lífríkið og annað í þeim dúr og þar þurfum við sannarlega að bæta getu stofnunarinnar til að geta vottað það, þ.e. að fara í frekari umhverfisrannsóknir.

Þetta hefur hins vegar á margan hátt gengið nokkuð vel hjá okkur og eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni stendur stofnunin ágætlega fjárhagslega um þessar mundir og með allt öðrum hætti en á undanförnum árum.

Menn hafa auðvitað farið í ákveðnar hagræðingaraðgerðir. Menn hafa farið í samstarf við önnur ríki. Við höfum til dæmis gert samninga við Grænland um að nýta skip okkar til rannsókna annars staðar. Í samskiptum þeirra ríkja sem koma að loðnusamningi hefur komið til tals að það sé hluti af samningnum að þau ríki taki þátt í kostnaðinum við það.

Ef við horfum til að mynda, sem við gerum oft í þessum sal, til Norðmanna þá tekur atvinnugreinin þar miklu meiri þátt í kostnaði við hafrannsóknir en gert er hérlendis. Það er að nokkru leyti annars konar kerfi og við verðum að tryggja það að sú vottun sem hin opinbera stofnun, Hafrannsóknastofnun, síðar meir Haf- og vatnastofnun Íslands — að þær niðurstöður sem hún gefur frá sér séu trúverðugar og óumdeildar.

Ég held hins vegar að við getum á sama tíma vel fetað inn í umhverfi þar sem við horfum til nágrannaríkjanna, hvernig þau gera þetta, til að tryggja að þær rannsóknir sem við þurfum á að halda fari fram og verði gerðar á sem hagkvæmasta hátt á hverjum tíma.