145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:27]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég hafði einmitt ætlað að gera hafrannsóknir og framlög til þeirra að umtalsefni en get stytt mál mitt nokkuð með vísan til þeirra orðaskipta sem hér fóru fram. Ég deili áhyggjum af því að þarna sé naumt gefið. Það er ánægjulegt að ráðherrann metur stöðu stofnunarinnar betri en hún hefur verið að undanförnu. Ég þekki það af fyrri reynslu að það var orðið erfitt að fleyta þeim hlutum áfram og flestir sjóðir tæmdir. Hér á þó að lækka samanlagða fjárveitingu þessara tveggja stofnana sem til stendur að sameina. Það hefur stundum komið á daginn að hagræðing af slíku lætur í öllu falli á sér standa og kemur ekki strax og oft jafnvel kostnaður á móti.

Þarna er líka verið að draga úr tímabundnu framlagi til að endurnýja viðhalds- og tækjabúnað. Þá verð ég að spyrja, þó að það megi kallast hugrekki að gera það í ljósi þessara talna: Hvað líður ákvörðun um endurnýjun skipakostsins? Fyrir þremur árum eða svo voru gögn á mínu borði um að það væri neyðarástand fram undan og ekki yrði hægt að halda minna rannsóknarskipinu úti mikið lengur án þess að ráðast annaðhvort í stórfellda endurbyggingu eða hefjast handa um að undirbúa nýsmíði. Endurbyggingin er væntanlega ekki góð fjárfesting og nýsmíðin tekur tvö til þrjú ár. Ákvörðun þarf að fara að liggja fyrir í því máli, jafnvel þó að fjárveitinga verði kannski ekki þörf fyrr en á árinu 2017.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra um framlög til byggðamála. Mér heyrðist hann segja að hér væri lítillega bætt við í þeim efnum en engu að síður vekur greinargerðin á bls. 328 í fjárlagafrumvarpinu áleitnar spurningar. Í fyrsta lagi segir þar, með leyfi forseta:

„Hins vegar er lagt til að niður falli 50 millj. kr. tímabundið framlag vegna sértækra aðgerða á varnarsvæðum er snúa að brothættum byggðarlögum …“

Á að slá það verkefni af? Á að taka þennan texta bókstaflega? Það var eitthvert klúður með þetta í fyrra, er það að endurtaka sig hér?

Í öðru lagi segir um sóknaráætlanir landshluta: „… annars vegar lagt til að veitt verði 45 millj. kr. framlag til sóknaráætlana landshluta.“ — Ha? 45 milljónir í allt verkefnið. Er þetta rétt? Frú forseti, ég er að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: Er þetta réttur texti? Hæstv. ráðherra, er þetta réttur texti í fjárlagafrumvarpinu? Þá kalla ég það nú ekki merkilega aukningu því að þetta eru þá orðnir svo hlægilegir smáaurar að sú viðamikla vinna sem er til undirbúnings því að landshlutarnir forgangsraði óskum sínum er hlægileg ef ekki eru settir meiri fjármunir í þetta.

Í þriðja lagi. Það er lítið sem hundstungan finnur ekki þegar verið er að sleikja upp einhvern sparnað — að fella niður 2 millj. kr. tímabundið framlag til Rannsóknastöðvarinnar Rifs ses., sjálfseignarstofnunar á Raufarhöfn, sem var hluti af verkefninu Brothættar byggðir á Raufarhöfn. Hvaða skilaboð eru þetta? Eitt af því sem menn hafa bundið vonir við að gæti lyft staðnum eitthvað.

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra, þótt það heyri kannski ekki beint undir hann, eða nú man ég það ekki vegna þess að verkefnið er hjá Byggðastofnun, um jöfnun flutningskostnaðar. Þar eru núna aðeins settar inn fyrir árið 2016 175 millj. kr. en verkefnið lagði af stað með 200 millj. kr. árið 2012, (Forseti hringir.) þannig að hér er auðvitað um verulega skerðingu að ræða að raungildi. (Forseti hringir.) Hvað segir ráðherra byggðamála um þetta?