145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Áfram aðeins um byggðaáætlun og sóknaráætlanir landshluta sem eru á bls. 65. Þar kemur fram að byggðaáætlun er 340,6 millj. kr. og sóknaráætlanir landshluta 145 millj. kr., þannig að það kemur fram í textanum. Í skýringartextanum er fyrst og fremst fjallað um það sem er breytt frá fjárlögunum í fyrra, eins og menn þekkja. Ég get tekið undir með fyrrverandi fjármálaráðherra og hv. fyrirspyrjanda að þessi texti, sem hefur alltaf verið svona, er svolítið óskiljanlegur. Hann hefur alla tíð verið svona og það þarf dálítið að lesa á milli línanna og vita hvað var í fyrra til að átta sig á því hvað þarna stendur. Það mætti alveg velta því fyrir sér hvort ekki væri hægt lagfæra það.

Varðandi flutningssjóðinn er það einfaldlega þannig að fjármunirnir hafa minnkað vegna þess að fjármunirnir hafa ekki gengið út. Það hefur sem sagt verið minni þörf á þessum fjármunum. Við höfum gert þetta til samræmis við það sem hefur verið og vænst. Ég er sammála hv. þingmanni, þetta er mikilvægt verkefni. Það má vel vera að við þyrftum á einhverjum tímapunkti að velta því fyrir okkur hvort sú uppsetning sem var á sjóðnum, fjarlægðir og hlutföll, sé rétt en eins og þetta kerfi var sett upp hafa fjármunirnir ekki nýst meira en þetta og þess vegna erum við í raun og veru að aðlaga okkur að því umhverfi sem er í landinu.

Að lokum um samgöngumál. Ég held að við getum öll verið sammála um að á liðnum árum höfum við veitt of litla fjármuni til samgöngumála, hafna, flugvalla og vegagerðar í landinu. Eitt af stærstu verkefnunum sem við stöndum frammi fyrir er að auka þau framlög. Ég held að það sé sameiginlegt verkefni sem þingið þarf að skoða í ljósi vaxandi ferðamennsku en ekki síður (Forseti hringir.) sem öryggismál fyrir okkur íbúa landsins.