145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skal glaður útskýra þessa liði. Varðandi síðasta liðinn á bls. 320, þessar 15 millj. kr., þá er þetta ekki vegna hefðbundinna EES-heimsókna eða eitthvað slíkt, þetta er einmitt vegna þess að við erum að gera fríverslunarsamninga við lönd langt í burtu. Í kjölfarið á fríverslunarsamningi þurfum við að gera svokallaðan dýralæknissamning eða dýraheilbrigðissamning og ekki hefur verið gert ráð fyrir því í ferlinu. Síðan þegar við höfum verið í samskiptum við þjóðir, hvort sem er í Asíu, Afríku, Ameríku eða annars staðar frá, það er auðvitað ekki sams konar regluverk og er í EES-samningnum þannig að viðkomandi þjóðir gera kröfur um eitthvað öðruvísi. Þær vilja síðan sjálfar koma og taka það út og gera kröfu um að við greiðum hluta þess kostnaðar og hann hefur ekki verið fjármagnaður, eða fjármunir áætlaðir í hann, til þessa og við erum að bregðast við því.

Varðandi Matvælalandið Ísland þá eru þetta 80 millj. kr. á ári í fimm ár, þetta eru 400 millj. kr. Það er auðvitað umtalsvert fé þótt það sé mjög lítið þegar við förum að velta því fyrir okkur hvað þetta verkefni á að spanna í heild sinni. Verkefni af sambærilegri tegund var unnið í Svíþjóð fyrir einum sjö til átta árum og hefur kostað sænska ríkið þó nokkuð marga milljarða, þeir hafa sett þó nokkuð marga milljarða í verkefnið en það hefur hins vegar skilað þeim milljörðum mörgum sinnum til baka. Við væntum þess sama af þessu verkefni.

Þetta er unnið í samstarfi við Íslandsstofu og undirbúningurinn er farinn af stað að því að kanna viðhorf og sjónarmið grasrótarinnar. Það er mjög mikið atriði að öll grasrótin á Íslandi upplifi sig sem þátttakanda í því að framleiða mat, hvort sem er í landbúnaði eða sjávarútvegi, og þess vegna er þetta mjög spennandi verkefni.

Það sama gildir um hestaverkefnið. Það eru til alþjóðasamtök íslenska hestsins, FEIF, í þeim eru tuttugu lönd. Íslenski hesturinn er sennilega í þrjátíu ríkjum allt í allt. Það eru 500 þús. manns í hinum stóra heimi í 60 aðildarfélögum íslenska hestsins, (Forseti hringir.) þetta er fólk sem er okkar bestu sendiherrar, það vill kaupa allar íslenskar vörur. Við erum í þessu verkefni líka með 25 millj. kr. á ári til fjögurra ára gegn því að greinin komi með krónur á móti og þess vegna gæti þetta orðið lægra. (Forseti hringir.) Með þessu erum við að reyna að stækka kökuna sem er íslenski hesturinn (Forseti hringir.) en allar aðrar íslenskar afurðir geta líka byggt markaðssetningu á því.