145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að einbeita mér að húsnæðismálum en vil þó byrja á því að spyrja út í NPA sem ráðherrann kom lítillega inn á. Nú er það svo að á næsta ári verður fjárveiting ríkisins 150 millj. kr. Það hafa staðið yfir miklar deilur við sveitarfélögin varðandi fjármögnunina og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að þessi fjárveiting, 150 millj. kr., dugi til þess að uppfæra samningana í samræmi við kjarasamninga, til þess að fjölga samningunum í 61 og hvort sveitarfélögin séu sátt við það að hlutdeildin fari ekki upp í 30% fjármögnun ríkisins heldur verði áfram 20%.

Þá eru það bifreiðamálin og styrkir til hreyfihamlaðs fólks. Það var nefnd sem skilaði skýrslu og meginmarkmiðið í þeirra tillögum var að rjúfa og koma í veg fyrir félagslega einangrun hreyfihamlaðra og auka möguleika þeirra til vinnu, endurhæfingar og náms. Það átti að breyta bifreiðastyrkjunum og koma líka á samgöngustyrkjum til allra hreyfihamlaðra. Áætlaður kostnaður fyrsta árið var 210 milljónir sem mundi síðan aukast. Það var rík sátt um þessar tillögur og ráðherra fagnaði þeim á sínum tíma. Í fjárlagafrumvarpinu er augljóslega búið að henda tillögunum og í staðinn á að skerða fjárveitingar í bifreiðastyrki. Ég vil spyrja ráðherra hverju þetta má sæta, af hverju er fólk fengið til þess að vinna vinnu þar sem það nær niðurstöðu og síðan eru tillögurnar að engu hafðar?

Þá komum við að húsnæðismálunum og ég lýsi yfir vonbrigðum að þar hafi ekki verið gert betur. Það er verið að skerða vaxtabætur um 1,5 milljarða og mér finnst ótrúlegt þegar það ástand ríkir á leigumarkaði sem nú ríkir að að minnsta kosti þeirri fjárhæð hafi ekki verið bætt við þá 2,6 milljarða sem eiga að fara í málaflokkinn til viðbótar, sem eru þá annars vegar þessar 400 íbúðir sem eru allt of fáar og verkalýðshreyfingin hefur nú þegar lýst yfir miklum vonbrigðum með að ekki sé farið í að minnsta kosti 600, ég tel að þær hefðu þurft að vera fleiri.

Síðan vil ég spyrja: Hvað varð um áætlanir um eflingu almenns leigumarkaðar? Það er góðra gjalda vert að finna leiðir til þess að byggja ódýrt og lítið húsnæði en það er mikil þörf fyrir húsnæði fyrir fjölskyldur á almennum leigumarkaði. Það verður að fara af fullum krafti í að efla hann því að nútímasamfélag virkar ekki nema þar sé alvöru, virkur almennur leigumarkaður. Hverjar eru raunverulegar áætlanir ráðherra í þeim efnum?