145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Í mínum huga eru lykiltölurnar í yfirlýsingu stjórnvalda að við munum kosta núvirt 30% af stofnvirði íbúða. Það er líka bent á varðandi tekjudreifingu, mismunandi fjölskyldustærðir og aðstæður fólks þegar kemur að húsnæðismálunum, þannig að hugsunin er með þessum 30% framlögum ríkis og sveitarfélaga — við megum ekki gleyma því að forsendan fyrir því að hægt verði að fá stofnframlög frá ríkinu er að sveitarfélögin séu búin að samþykkja fyrir sína parta að koma með framlög — við munum útfæra það varðandi fjöldann og annað.

Það er að sjálfsögðu þannig að við erum að gera eitthvað sem við höfum ekki gert áður, við erum að byggja upp nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi, ég skal bara segja það hér, að danskri fyrirmynd með okkar fyrirkomulagi sem snýr að fjármögnuninni. Það mun síðan náttúrlega að mestu leyti skýra sig þegar frumvarpið kemur fram í þinginu hvernig staðið verður nákvæmlega að útfærslunni. Það sama gildir um dreifingu íbúðanna. Ég legg mikla áherslu á að við erum að fara byggja húsnæði með stofnframlögum, eða réttara sagt, við erum að fara styrkja þá sem ætla sér að fara að byggja eða afla húsnæðis þar sem þörf er á húsnæði. Það þarf að vera skýr þörf fyrir húsnæðið. Við vitum að víða úti um land hefur til dæmis aukinn ferðamannastraumur eða jákvæð byggðaþróun leitt til þess að veruleg þörf er á húsnæði. Mér skilst til dæmis að í einu sveitarfélagi í Suðurkjördæmi hafi þeir verið að missa kennara einfaldlega vegna þess að viðkomandi var orðinn þreyttur á að búa á farfuglaheimilinu yfir vetrartímann. (Forseti hringir.) Við munum horfa til þessara þátta, hvar þörfin er fyrir húsnæði og á því munu framlögin byggjast.