145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Almannatryggingar eru einn af stærstu málaflokkunum í fjárlögunum og bæði aldraðir og öryrkjar hafa gert alvarlegar athugasemdir við það að þeir njóti ekki kjarabóta frá 1. maí eins og annað fólk í landinu. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi beitt sér fyrir því að þeir hópar fengju sömu leiðréttingar og aðrir. Fjölmargir opinberir starfsmenn hafa fengið sendar ávísanir úr ríkissjóði upp á kjarabætur frá 1. maí sl. til þessa dags og ekki hefur verið spurt um fjárveitingar í því sambandi. Það koma bara aukafjárveitingar fyrir þeim útgjöldum og ófyrirséðum. Ég spyr ráðherrann þess vegna: Hver hefði kostnaðurinn verið við það fyrir ríkissjóð að bæta kjör aldraðra og öryrkja með sama hætti og annarra í landinu á þessu ári frá 1. maí og til áramóta? Ég vil líka spyrja ráðherrann, vegna þess að ég gef mér líka að hún hafi beitt sér fyrir því að á næsta ári sem eru í fjárlögunum sem hér eru undir, 2016, þá fengju bæði aldraðir og öryrkjar sömu kjarabætur og þeir sem lægst hafa launin. Hvað hefði ríkissjóður þurft að setja umfram það sem er í fjárlagafrumvarpinu í almannatryggingarnar til að svo mætti verða? Hvað þarf þingið að bæta við mörgum milljörðum til að aldraðir og öryrkjar njóti sömu kjarabóta og aðrir í landinu?

Ég vil líka spyrja ráðherrann um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég fæ ekki séð að neinar fjárveitingar séu til þess verkefnis á næsta ári. Ráðast þarf augljóslega í ýmis verkefni ef á að fullgilda samninginn og verja til þeirra verkefna fjármunum. Ég spyr því ráðherrann einfaldlega hvort ekki standi til að fullgilda sáttmálann á næsta ári. Við erum að verða með seinustu þjóðum á byggðu bóli til að klára það verkefni og ég undrast að ekki sé að finna neinar fjárveitingar í frumvarpinu að því er ég fæ séð til að tryggja að það megi takast á næsta ári.

Ég hlýt síðan að spyrja ráðherrann hvort ég hafi heyrt það rétt að hún hafi verið að réttlæta það að þessi fremur veigalitlu framlög til félagslegra leiguíbúða, 400 íbúðir á heilu kjörtímabili sem er nú með því minnsta sem þekkist á síðari áratugum í Íslandssögunni, verði fjármögnuð með niðurskurði á vaxtabótum. Heyrði ég það rétt að ráðherrann væri að réttlæta að það væru eðlilegar röksemdir á bak við það? Þar er fjárhæðarmörkum haldið föstum milli ára og fólkið sem hefur verið að kaupa íbúðarhúsnæði við erfiðar aðstæður eftir hrun getur ekki treyst því að vaxtabæturnar sem það lagði til grundvallar í áætlunum sínum (Forseti hringir.) haldi frá einu ári til annars. Er ráðherrann að mæla því bót að komið sé þannig í bakið á unga fólkinu sem er að reyna að kaupa sér húsnæði núna?