145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður þurfi aðeins að athuga hvað hann heyrir. Það sem ég benti einfaldlega á var að vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, skuldaleiðréttingarinnar, hefur skuldastaða heimilanna batnað verulega umfram það sem við jafnvel þorðum að spá þegar við kynntum skuldaleiðréttinguna, og það er mjög jákvætt.

Það er hins vega líka ástæða fyrir því að við teljum mjög mikilvægt að fara í aðgerðir gagnvart þeim sem eru á leigumarkaðinum, alveg eins og við lofuðum í tengslum við skuldaleiðréttinguna og erum búin að lofa gagnvart aðilum vinnumarkaðarins. Ég benti líka á að það sé mikilvægt núna að þar sem frumvarpið er komið í meðferð þingsins sé farið yfir forsendur einstakra liða og þingmönnum gefist gott tækifæri til að fara í gegnum frumvarpið á næstu vikum og mánuðum.

Varðandi spurningu um samning Sameinuðu þjóðanna, já, það er markmið ríkisstjórnarinnar að lögfesta hann og við höfum verið að vinna að því. Innanríkisráðherra mun leggja það frumvarp fram og er með á þingmálaskrá sinni frumvarp sem snýr að breytingum á ýmsum lögum í samræmi við samninginn. Síðan erum við með fjárlagalið, þ.e. framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem er aukning, við erum sérstaklega að huga að því, verkþáttur sem við erum með, og til samanburðar við það sem kom inn í framkvæmdaáætlunina á síðasta kjörtímabili erum við að tala um umtalsverða meiri fjármuni sem verið er að eyrnamerkja framkvæmdaáætluninni.

Hv. þingmaður spurði um útreikninga á því ef við mundum gera eitthvað annað, þá er það rökstutt í fjárlagafrumvarpinu hvernig sú tala fæst fram upp á þessa prósentutölu. Þar kemur fram að hækkun bóta er í takt við ákvæði laga um almannatryggingar sem kveður á um að fjárhæðir bóta almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og taka mið af launaþróun. Í fyrrgreindri prósentuhækkun, 9,4%, er tekið tillit til launaþróunar bæði á yfirstandandi ári og því næsta. (Forseti hringir.) Síðan er farið líka í gegnum aðrar hækkanir sem hafa orðið í upphafi árs 2015 og 2014, sem hv. þingmaður getur kynnt sér. En hins vegar er sjálfsagt, og ég er viss um að fjárlaganefnd getur óskað eftir því, að það verði reiknað sérstaklega ef áhugi er fyrir því.