145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:47]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir spurninguna. Í vinnu varðandi húsnæðismálin höfum við ekki undanskilið landsbyggðina frekar en önnur sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er hins vegar alveg rétt sem þingmaðurinn bendir á að á sumum stöðum hefur það nánast verið þannig að við það að byggja hefur verðmæti húsnæðisins lækkað um leið og maður opnar hurðina í fyrsta skipti og flytur inn.

Ég vísa til 2. gr. í yfirlýsingu stjórnvalda varðandi húsnæðismálin og fjölgun hagkvæmra og ódýrra íbúða. Ég held að það sé gífurlega mikilvægt að leita allra leiða til að byggja sem hagkvæmast þegar kemur að byggingum úti á landi. Ég hef þegar átt góðan fund með fulltrúum sveitarfélaganna fyrir vestan, ég hef heyrt frá ýmsum sveitarfélögum, t.d. á Snæfellsnesinu, á Suðurlandi og fyrir norðan. Það kom sérstök yfirlýsing núna þar sem hvatt er til þess að við ræðum sérstaklega við Norðurþing um húsnæðismálin þar. Ég hef alltaf litið svo á að við þurfum að tryggja að sveitarfélögin hringinn í kringum landið geti nýtt sér þau úrræði sem við bjóðum upp á.

Hins vegar, ég ætla að vera mjög skýr hvað það varðar, tel ég að þá verði að liggja fyrir góð greining á raunverulegri þörf fyrir slíkt húsnæði á viðkomandi svæðum, að við séum ekki að fara að taka annan snúning sem endar með því að við þurfum enn á ný að virkja varasjóð húsnæðismála, sem hefur í raun enn ekki lokið verkefnum sínum fyllilega. Sum sveitarfélög eru í þeirri einkennilegu stöðu að búa við ákveðinn húsnæðisskort á sama tíma og þau eiga mikið af húsnæði, en það húsnæði er of stórt, því hefur verið illa við haldið eða rangar ákveðnar voru teknar varðandi uppbyggingu þess.

Þessu tengist að ég mun væntanlega þurfa að leggja fram frumvarp vegna afgreiðslu á ákveðnum málum (Forseti hringir.) í lok síðasta þings sem tengjast varasjóði húsnæðismála, til að hægt sé að klára þessi mál gagnvart nokkrum sveitarfélögum hringinn í kringum landið.