145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:52]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum. Að mörgu leyti vil ég frekar líta á þetta sem fyrirspurn eða hvatningu og ábendingar í þeirri vinnu sem við erum í í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar tel ég líka mikilvægt fyrir mig sem ráðherra málaflokksins að tryggja að við gleymum okkur ekki í því að huga einungis að stóru sveitarfélögunum heldur hugum líka að litlu sveitarfélögunum og stöðunni þar.

Við höfum rætt við ýmis sveitarfélög hringinn í kringum landið og gerum ráð fyrir að halda því áfram. Ég vil ítreka það sem ég nefndi hér áðan, ég get kannski ekki nefnt það of oft, og ýmsu er hnýtt í mig fyrir að leggja svona mikla áherslu á það, en það er hagkvæmni í byggingu. Það hvernig við getum náð byggingarkostnaði niður skiptir gríðarlegu máli upp á kostnaðinn og hversu há lán við þurfum að taka til að fjármagna viðkomandi húsnæði. Við vitum að fjármagnskostnaður á Íslandi er hár. Eitt af því sem sveitarfélög sem sitja uppi með fjöldann allan af íbúðum í tengslum við gamla félagslega kerfið þurfa að eiga við eru lánin og sú staðreynd að ekki var byggt nógu hagkvæmt, ekki byggðar réttu tegundirnar af íbúðum. Þetta er núna að sliga sum sveitarfélög og hefur reynst mörgum sveitarfélögum mjög erfitt.

Það er annað sem ég vildi nefna sérstaklega. Það er áhugavert fyrir okkur að velta fyrir okkur einu í framhaldinu, eins og við höfum verið að gera og ætlum okkur að vinna virkilega vel að, en það er reksturinn á húsnæðinu. Við erum með köld svæði hér á landi þar sem fólk nýtur ekki góðs af ódýrri raforku og hita eins og fólk á höfuðborgarsvæðinu og á langflestum svæðum á landinu. Það eru ákveðin svæði þar sem það gildir ekki. Við höfum í auknum mæli niðurgreitt þann kostnað en spurningin er sú hvort við getum reynt að tryggja að við spörum líka við rekstur húsanna sem við erum að byggja. Eru einhverjar leiðir til þess? (Forseti hringir.) Þar geta hugmyndir frá Norðurlandaþjóðunum líka nýst því að þær eru með mun hærri kostnað en við hér á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að þessum liðum.