145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[18:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir þeim þætti sem varðar mennta- og menningarmálaráðuneytið. Fjármálaráðherra hefur þegar fjallað almennt um frumvarpið og farið heildstætt yfir það, en heildargjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins árið 2016 eru áætluð 87,5 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Frá dragast sértekjur að fjárhæð 9,5 milljarðar kr. en þær nema 10,9% af heildargjöldum ráðuneytisins. Gjöld umfram tekjur eru tæpir 77,9 milljarðar kr. og af þeirri fjárhæð eru um 72 milljarðar kr. fjármagnaðir með beinu framlagi úr ríkissjóði og 5,9 milljarðar kr. innheimtir af ríkistekjum. Í frumvarpinu aukast útgjöld mennta- og menningarmálaráðuneytisins um 2,2 milljarða á föstu verðlagi fjárlaga 2016 sem er 3% hækkun frá fjárlögum en þegar einnig er tekið tillit til áhrifa almennra verðlags- og gengisbreytinga hækka útgjöldin um 5 milljarða kr. á milli ára eða sem svarar til 6,8% hækkunar útgjalda vegna fyrirliggjandi skuldbindinga.

Bundin útgjöld á árinu 2016 eru 2,3 milljarðar kr. og til nýrra verkefna, eða útgjaldasvigrúmið, er varið liðlega 1 milljarði kr. Útgjaldasvigrúm ráðuneytisins var tæpir 1,5 milljarðar kr. og aðhaldskrafa var 426 millj. kr. og nýtti ráðuneytið útgjaldasvigrúmið til að mæta aðhaldskröfunni og lækkar útgjaldasvigrúmið sem því nemur og verður liðlega 1 milljarður kr. Á móti koma lækkanir sem nema um 1,2 milljörðum kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður. Aðrar breytingar eru launa- og verðlagsbætur, samtals 2,8 milljarðar. Útfærsla í frumvarpinu á fjárveitingum til verkefna mennta- og menningarmálaráðuneytisins markast af því að leitast við að að standa vörð um lögbundin verkefni, grunnstarfsemi og lykilstofnanir. Þetta hefur meðal annars áhrif á það hvernig staðið er að því að mæta þeirri aðhaldskröfu sem gerð var til ráðuneytisins við undirbúning frumvarpsins. Þá er lögð aukin áhersla á forgangsröðun og þannig leitast við að styrkja rekstrargrunn stofnana ráðuneytisins og auka samræmi á milli þeirra krafna sem gerðar eru til þeirra um þjónustu sem ætlast er til að þær veiti og þess fjármagns sem veitt er til starfseminnar.

Á háskólastigi er gert ráð fyrir að heildarframlög til málaflokksins hækki um 1,5 milljarða að frátöldum verðlagsbreytingum. Helstu hækkanir eru framlag í Rannsóknarsjóð og Innviðasjóð um 1 milljarð kr. vegna aðgerðaáætlunar Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2015–2016. Hækkanir um 430 millj. kr. tengjast áformum um styrkingu á rekstri háskólastofnana með hækkun á einingaverði einstakra reikniflokka í reiknilíkani háskóla. Ráðuneytið vinnur nú að mótun heildstæðrar stefnu fyrir háskóla- og vísindastarfsemi til næstu fimm ára og í stefnunni verður fjallað um ólíka þætti æðri menntunar, rannsókna og nýsköpunar og helstu stofnana sem falla undir yfirstjórn þess eða eru með samninga þar við.

Stefnan verður síðan lögð til grundvallar ákvörðunum um kennslu og rannsóknir í háskólum, rannsóknastofnunum og þekkingarsetrum sem fá fjárveitingar á liðum ráðuneytisins en jafnframt verður fjallað um stöðu og hlutverk Rannsóknamiðstöðvar Íslands og Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Ráðuneytið miðar við að birta haustið 2015 grunnskjal sem varpar ljósi á starfsemi háskóla og rekstur vísindakerfisins og er leitast við að skilgreina helstu áhrifaþætti þess innan þess og utan.

Á framhaldsskólastigi er gert ráð fyrir að heildarframlög til málaflokksins lækki frá gildandi fjárlögum um 58,9 millj. kr. að frátöldum launa- og verðlagsbótum en þær nema liðlega 1,3 milljörðum kr. Helstu hækkanir til málaflokksins eru 100 millj. kr. framlag til reksturs framhaldsskóla, 135 millj. kr. framlag til eflingar tónlistarkennslu á framhaldsstigi og 200 millj. kr. framlag sem veitt er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem ætlað er að efla símenntunarmiðstöðvar, námstækifæri fyrir nemendur 25 ára og eldri og Vinnustaðanámssjóð.

Framlag til reksturs framhaldsskóla hækkar um alls 200 milljónir. Annars vegar er um að ræða 100 millj. kr. hækkun á útgjaldasvigrúmi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hins vegar 100 millj. kr. millifærslu af óskiptum lið framhaldsskólastigsins. Á sama tíma er gert ráð fyrir óbreyttum ársnemendafjölda í framhaldsskólum frá yfirstandandi ári. Tímabundin framlög að fjárhæð 370 millj. kr. falla niður. Þar telur hæst 265 millj. kr. tímabundið framlag til framkvæmda við verkmenntahús við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem veitt var á fjárlögum yfirstandandi árs.

Á málefnasviði grunnskóla er gert ráð fyrir að heildarframlög hækki um 387,7 milljónir frá gildandi fjárlögum að frátöldum launa- og verðlagsbótum en þær nema 48,9 millj. kr. Hækkunin skýrist aðallega af tilfærslum á framlögum til nýrrar stofnunar, Menntamálastofnunar, sem fellur undir málefnaflokk grunnskólastigsins.

Á sviði menningar, íþrótta- og æskulýðsmála hækka heildarframlögin um 233 millj. kr. að frátöldum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema um 288,4 millj. kr.

Í frumvarpinu er lagt til að framlag til menningar, lista, íþrótta- og æskulýðsmála hækki um 716,9 millj. kr. Á móti er áformað að tímabundin framlög, samtals að fjárhæð 483,9 millj. kr., falli niður.

Helstu hækkanir eru liðlega 100 millj. kr. til að styrkja rekstrarstöðu sjö menningarstofnana, 250 milljóna framlag til styrkingar sjóðum á sviði menningar og lista og þar af 120 millj. kr. í Kvikmyndasjóð. Þá er lagt til rúmlega 120 millj. kr. hækkun til íþrótta- og æskulýðsmála og loks um 250 millj. kr. til ýmissa samninga og verkefna.

Virðulegi forseti. Ég vil sérstaklega vekja athygli á þeirri aukningu sem hér er lagt upp með til vísinda og rannsókna. Verið er að leggja grundvöll að framtíðarsókn í íslensku efnahagslífi með þessari stórauknu fjárhæð sem rennur meðal annars til Rannsóknarsjóðsins. Ég tel að við getum öll verið sammála um það og ég veit að þingið er einhuga um mikilvægi þessa verkefnis og það er gleðiefni að það hafi tekist núna að fjármagna þessa miklu sókn, bæði í Rannsóknarsjóðinn og eins í Tækniþróunarsjóðinn. Hér er verið að leggja grundvöll að stórsókn í nýsköpun í íslensku efnahagslífi.