145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að íslenska menntakerfið og sérstaklega framhaldsskólakerfið hefur nokkra sérstöðu. Við sitjum á botninum í samanburði við önnur OECD-ríki þegar kemur að námsframvindu. Með öðrum orðum, eins og hv. þingmaður telur reyndar sérstakan kost við kerfið, þá erum við með lægsta hlutfallið af þeim sem klára framhaldsskólanám á réttum tíma, þ.e. á þeim tíma sem námið á að taka. Það tel ég, virðulegur forseti, ekki sérstakt styrkleikamerki. (ÁPÁ: Það er ekki endilega veikleikamerki.) Hér kallar hv. þingmaður fram í að það sé ekki endilega veikleikamerki. Hefur hv. þingmaður gert sér grein fyrir því að Íslendingar eru í þeirri undarlegu stöðu hvað varðar háskólakerfið — en það er í rökréttu framhaldi af þessum tölum — að hvergi þekkist jafn hár útskriftaraldur úr háskóla og hér á Íslandi? Út úr háskóla útskrifast menn að meðaltali með BA- eða BS-gráðu þegar þeir eru rétt rúmlega þrítugir á Íslandi og er það einhvers konar met.

Hvað skyldi þetta nú hafa að gera með framleiðni í landinu? Ef hv. þingmaður er mér sammála um að menntun skipti einhverju máli þá hlýtur það að vera þannig að því fyrr sem menn afla sér menntunar og byggja reynslu ofan á menntunina sé líklegra að framleiðni í samfélaginu aukist. (Gripið fram í.) Skyldi það nú vera þannig, virðulegi forseti, að eitthvert samhengi sé á milli þess að við séum sú þjóð sem hefur lélegustu námsframvinduna á framhaldsskólastiginu og útskrifumst síðust með BA- og BS-gráðurnar að þessi sama þjóð skuli vera í þeirri stöðu að framleiðni á vinnuaflsstund sé 20% lægri en í löndunum sem við berum okkur saman við?

Má ég bæta því við, virðulegi forseti, að það er akkúrat verið að horfa til þess hvaða reynslu aðrar þjóðir hafa af þessu. Ég tel að það sé ekki til fyrirmyndar að við séum eftirbátar annarra þegar kemur að því að mennta ungmennin okkar, að þau mennti sig síðar en aðrir og geti þess vegna nýtt sér menntun sína skemur á vinnumarkaði en aðrir.

Virðulegi forseti. Það er ekki verið að loka á námsúrræðin. Þeir sem eru orðnir 25 ára og eldri — það þýðir að í þriggja ára námi hafa menn níu ár til að ljúka náminu — geta áfram leitað sér menntunar. Standi hugur þeirra til þess að fara í háskólanám geta þeir farið gegnum símenntunarstöðvarnar og síðan í gegnum háskólagáttirnar og farið í það nám sem þeir kjósa. Aftur á móti eru engar slíkar hömlur settar á þá sem eru að fara í iðn- og verknámið. Þetta hef ég margoft farið yfir fyrir hv. þingmann, virðulegur forseti, og ég er sannfærður um að þetta mun smám saman síast inn.