145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:11]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við deilum ekki sýn á menntakerfið, ég og hæstv. ráðherra, eins og kom fram í andsvörum hans við hv. þingmann Árna Pál Árnason. Ég er nokkuð sammála því sem sá þingmaður talaði fyrir. Mig langar að ræða framhaldsskólann á þeim stutta tíma sem við höfum. Ég tek undir að mér finnst verið að beygja í átt að ákveðinni einsleitni. Mér finnst vert að hugsa um að hér verið er að leggja til styttingu náms á kostnað nemendaígilda, þ.e. það er fækkun á nemendaígildum, í sumum skólum í það minnsta, sem er hluti af því að borga þetta úrræði hæstv. ráðherra. Til dæmis í þeim skóla sem við höfum oft rætt um, Menntaskólanum á Tröllaskaga, á enn að fækka nemendaígildum þrátt fyrir að skólinn sé að sprengja utan af sér, þrátt fyrir að hann sé að taka inn miklu fleiri nemendur og hefði getað tekið inn enn fleiri. Þegar ráðherrann talar um að fólk geti sótt sér nám annars staðar, eftir öðrum úrræðum, verður hann að hafa í huga kostnað. Það er dýrara að sækja sér ýmist fjarnám eða inn í símenntunarmiðstöðvar eða annað slíkt og mér finnst óásættanlegt að hann leggi það að jöfnu.

Í beinu framhaldi af því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um jöfnun á námskostnaði. Hvað er að baki því að sjóðurinn er skertur um 27 milljónir? Hefur umsóknum í sjóðinn fækkað eða á að skerða við hvern og einn?

Mig langar líka að spyrja um tónlistarnám. Það kemur fram um nýjungar í skólastarfi að verið sé að vinna að heildarstefnu, getur ráðherra geti upplýst okkur hvað hann er að fara þar?

Varðandi framhaldsskólana er afar mikilvægur punktur sem mér finnst ráðherra þurfa að svara og stendur upp á meðal annars byggðastefnu Sjálfstæðisflokksins. Námið er stytt eins og ráðherrann gerði í gegnum fjárlög, því að eins og kom fram var það ekki gert eftir formlegum leiðum í þinginu, en hvað með fagleg áhrif á styttinguna, þ.e. fækkun opinberra starfa? Það er ekki nóg að hæstv. ráðherra mennti fólk og komi því fyrr út á markaðinn ef tækifærum er um leið fækkað fyrir nemendur til dæmis til þess að koma heim og kenna. Mér finnst mjög mikilvægt að vita hvort þetta hafi ekki farið í gegnum huga hæstv. ráðherra. Svo væri áhugavert að vita hversu margir á ráðherrabekknum, þeir sem eiga sæti þar, útskrifuðust á réttum tíma, eins og sagt er.