145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aftur um 25 ára regluna svokölluðu. Úr því að hv. þingmaður nefndi hana í upphafi máls síns vil ég ítreka þetta: Rannsóknir sýna að í engum hópi sem hefur verið í námi í framhaldsskólakerfinu er jafn mikið brottfall og hjá þeim sem eru 20 ára og eldri og stunda nám í framhaldsskóla. Hvers vegna skyldi það nú vera? Jú, vegna þess að framhaldsskólinn er þannig uppbyggður, hvað varðar námsefni, kennsluaðferðir og nálgun, að meginþungi starfseminnar miðar að þeim sem eru á hinum hefðbundna framhaldsskólaaldri. Við því er að búast. Það er ástæða fyrir því að þær þjóðir sem við horfum einkum til þegar við horfum til fyrirmynda eða hugmynda um hvernig við eigum að byggja upp kerfi okkar, t.d. Norðmenn og Svíar, hafa sett upp nákvæmlega sömu regluna og við erum að ræða hér. Ég held að rétt sé að hafa í huga að þetta er ekki séríslensk uppfinning heldur erum við einmitt að horfa til reynslu annarra þjóða.

Hvað varðar námskostnaðinn við þessi námsúrræði er líka rétt að horfa til þess hversu langur námstíminn er, á hversu skömmum tíma hægt er að ljúka námi í gegnum símenntunarstöðvarnar og háskólagáttirnar annars vegar til að fá réttindi til þess að fara í háskólanám og hins vegar með því að fara hina hefðbundnu framhaldsskólaleið. Það þarf að horfa til þess vegna þess að þarna er þá um að ræða tapaðar vinnutekjur eða launatekjur sem eru til komnar vegna þess að menn þurfa að stunda nám og þá blasir við svolítið önnur mynd en sú sem hv. þingmaður dregur upp.

Hvað varðar styttinguna og faglega útfærslu þar á vil ég í fyrsta lagi nefna að það fyrirkomulag sem við horfum til varðandi framhaldsskólann hvílir á lögum um framhaldsskóla. Það er ekki í fjárlögum sem ákvarðanir eru teknar um það. Þau lög fóru í gegnum þingið fyrir mörgum árum, sú umræða fór þar fram. Hvað varðar fjölda kennara er markmiðið með menntakerfinu ekki fjöldi kennara, markmiðið með menntakerfinu er menntun ungmennanna, barnanna, háskólamenntun o.s.frv., fjöldi kennara er ekki merki um það hvort (Forseti hringir.) menntakerfi okkar skilar árangri eða ekki, virðulegi forseti.