145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Við deilum þessu ekki, það er alveg ljóst. Að sjálfsögðu er menntakerfið fyrir þá sem þar stunda nám en það er mjög sérstakt að heyra ráðherra segja að hann vilji loka skólum fyrir fólki sem glímir við erfiðleika, þ.e. fyrir þeim sem einhverra hluta vegna teljast svokallaðir brottfallsnemendur. Það er fólk sem einhverra hluta vegna treystir sér ekki til að ljúka námi á tilskildum tíma eða vera í samfelldri skólagöngu og því er bara ýtt út. Hvað má það fólk hugsa? Hæstv. ráðherra veit þetta, við komum bæði úr litlu samfélagi þar sem við þekkjum aðstæður.

Mig langar í því sambandi að spyrja hvort það liggi fyrir útfærsla á þessu, vegna þess að ég heyri að meira að segja í skólum á höfuðborgarsvæðinu fái nemendur sem eiga jafnvel eftir eitt ár eða þrjár annir ekki að halda áfram, þeir fá ekki að ljúka útskrift. Þá er það vegna þess að nemendaígildin eru ekki til staðar eða skólastjórnendum er sagt að taka inn miðað við þá röð sem við þekkjum og höfum oft farið í gegnum, fólki sem er orðið 25 ára er vísað frá og það gert á þessar forsendu, að því er skólameistarar segja.

Mig langar að spyrja um annað, um menningarsamningana, hvort þeir séu óbreyttir eða aukið í þá. Mig langar að spyrja hvort ráðherra telji að RÚV dugi þau fjárframlög sem því eru ætluð hér, lækkuð, af því að það var auðvitað sett inn aukið fé til að styrkja rekstur RÚV á yfirstandandi fjárlagaári. Mér finnst áhugavert að vita hvort hæstv. ráðherra ætlar að koma fram með einhverjar breytingar vegna RÚV og hækkun á gjöldum eða öllu heldur að ekki verði haldið áfram að lækka skattinn.