145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:19]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þetta orðalag „ýtt út úr skólakerfinu“, þeim sem eru brottfallsnemendur. Ég vil fyrst ítreka þetta: Það er lagt upp með það að í hefðbundnu bóknámi, sem mun taka þrjú ár, hafi nemendur níu ár til að ljúka því. Það er það sama og nemendur í Svíþjóð og Noregi, svo dæmi séu tekin, standa frammi fyrir. Síðan, þegar fólk er orðið fullorðið og hefur ekki nýtt sér þetta námsúrræði, eru önnur námsúrræði til boða. Við höfum á undanförnum árum verið að auka verulega í gegnum fjárlög framlögin til símenntunarstöðvanna, reyndar á sama tíma og skorið var ansi harkalega niður til framhaldsskólanna. Við vitum það sem ég margoft nefnt hérna að það úrræði, framhaldskólaúrræðið, virðist í það minnsta virka þannig að hlutfallslega mest brottfall er hjá þeim nemendum sem eru 20 ára og eldri. Og eigum við ekki, virðulegi forseti, að sýna aðeins meiri metnað hvað þetta varðar, hvað varðar úrræðin fyrir þá sem eldri eru frekar en að segja bara: Þið eigið öll að fara og setjast á skólabekk með þeim sem eru 16 ára? Eigum við ekki að sýna aðeins meiri metnað og virðingu gagnvart fullorðnu fólki og setja upp nám og námsúrræði sem henta fullorðnu fólki, taka tillit til reynslu þess, sníða það sérstaklega að því?

Hvað varðar menningarsamningana þá hefur, eins og hv. þingmaður þekkir, verið gerð töluverð breyting á því fyrirkomulagi sem við höfum um þá og við höfum rætt hér í þinginu. Við munum sjá núna hvort nýja fyrirkomulagið hentar eða hvernig það mun reynast á næstu árum, en ég get sagt hv. þingmanni að fjármagnið sem rennur til samninganna er óbreytt á milli ára. Reyndar fara inn á þennan lið nokkur verkefni sem veldur því að liðurinn hækkar um 19 milljónir en verið er að færa verkefni inn á liðinn og því ekki um raunhækkun að ræða.

Varðandi Ríkisútvarpið er auðvitað mál sem ég veit að við eigum eftir að ræða hér, sem eru fjármál Ríkisútvarpsins. Ég vil vekja athygli á því að uppgjörstölur Ríkisútvarpsins á þessu ári (Forseti hringir.) fyrir fyrstu sex mánuðina voru jákvæðar og það eru góðar fréttir að tekist hefur ágætlega (Forseti hringir.) að koma böndum á reksturinn. Það er síðan annað mál, sem ég veit að við munum ræða í þinginu, hvort sú fjárhæð sem þar er um að ræða hentar eða ekki.