145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:30]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hvað varðar tónlistarskólana þá hef ég lýst þeirri skoðun minni áður að það sé hryggilegt að sveitarfélagið Reykjavík, höfuðborgin, skuli hafa túlkað það samkomulag sem gert var árið 2011 af þáverandi hæstv. menntamálaráðherra eins og gert var. Því var ætlað alveg skýrt af hálfu ríkisins, og það hefur verið skilið þannig af öllum öðrum, að bæta fjármagni við málaflokkinn. Það var aldrei þannig að ríkið, með því samkomulagi, tæki með formlegum hætti málaflokkinn yfir til sín og ábyrgðina á honum, enda hefði þá þurft að gera lagabreytingar, breytingar á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Sveitarfélögin fara með allt forræði málaflokksins, þau semja um kaup og kjör við kennara, þau ráða fjölda nemenda og þjónustuframboði og öðru slíku. Þetta var einungis gert til að bæta við fjármagni til málaflokksins til að koma til móts við þann vanda sem þar var. Reyndar hefur ríkið bætt í frá því það samkomulag var gert og með engu má túlka slíkar viðbætur sem einhvers konar viðurkenningu á því að málaflokkurinn sé á höndum ríkisins.

Ég geri mér áfram vonir um að Reykjavíkurborg snúi af villu síns vegar og sýni metnað í þessum málaflokki og sinni honum af sóma, eins og höfuðborginni sæmir. Ég hef áður sagt það hér og það hefur líka vakið athygli mína að fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefur verið sama sinnis og ég hvað þetta samkomulag varðar. Þess vegna hljótum við öll að vera sammála því að sveitarfélagið Reykjavík þarf að nálgast þetta á annan hátt en gert hefur verið.

Virðulegi forseti. Nú stendur yfir vinna sem hefur staðið yfir frá því í vor, á samráðsvettvangi milli okkar og sveitarfélaganna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar, um breytt fyrirkomulag varðandi tónlistarkennsluna. Ég vonast til að geta sem fyrst komið með frumvarp til laga um breytt fyrirkomulag þessara hluta.

Hvað varðar íþróttamálin vil ég nefna það að við hv. þingmaður erum mjög sammála um mikilvægi þess málaflokks. Við bættum verulega við í þessum fjárlögum varðandi ferðasjóðinn, 15 millj. kr., og inn í afrekssjóðinn, sem stóð í 70 millj. kr., bættum við 30 millj. kr. Er það nóg? Ég tel að við þurfum að halda áfram með það verkefni en það er alla vega veruleg viðbót við það sem áður var.