145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og spurningarnar.

Fyrst varðandi táknmálstúlkasjóðinn. Skiptingin í árshluta var viðbragð við þeirri stöðu upphaflega þar sem við stóðum frammi fyrir því að fjármunirnir höfðu klárast jafnvel rétt upp úr miðju ári. Þá stóðum við frammi fyrir því að þeir sem þurftu á þeirri þjónustu að halda gátu þurft að bíða jafnvel mánuðum saman eftir henni, ef ekkert hefði verið að gert, ekki neinir nýir fjármunir hefðu borist. Hugsunin var þá sú að reyna að skipta þessu jafnt yfir árið þannig að það dreifðist með þeim hætti.

Niðurstaða dómsins sem hv. þingmaður nefnir hér er sú að 76. gr., a-liðurinn, sem snýr að veikindum, fötlun o.s.frv., knýr á um það að sett sé málefnaleg regla sem standist stjórnarskrárákvæði um veitingu þjónustunnar, þ.e. hvenær er sagt já og hvenær er sagt nei. Við höfum reynslu af slíkri reglusetningu til dæmis í velferðarþjónustunni almennt. Ég get sagt hv. þingmanni að það vinna stendur yfir í ráðuneytinu núna og ég hef beðið um að reynt sé að flýta því eins og mögulegt er að móta slíka reglu þannig að hægt sé að vinna eftir henni.

Hvað varðar Náttúruminjasafnið þá er, rétt eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, Reykjavíkurborg að skoða möguleika á slíku sýningarhaldi í Perlunni. Ég veit að við hv. þingmaður erum hjartanlega sammála um að munur er á sýningarhaldi og safni. Það er mun viðameira starf sem fer fram á safni en sýning er ein og sér. Það losar okkur ekki undan því verkefni sem við þurfum að ráðast í að reisa veglegt og gott náttúruminjasafn. Ég held að það sé ágæt hugmynd hjá hv. þingmanni, sem hér var nefnd, hvort ætti ekki að setja einhverja þverpólitíska nefnd til að vinna að því máli. Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni.

Aldarafmælissjóðurinn er óbreyttur frá því sem var. (Forseti hringir.) Hann er í háskólaliðnum. Ég vil benda á að veruleg aukning er á framlagi til Háskóla Íslands, (Forseti hringir.) annars vegar beint til skólans en hins vegar það framlag sem fer í gegnum rannsóknasjóðinn til að efla rannsóknir, sem skiptir miklu máli fyrir háskólann.