145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:38]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil aðeins biðja hann um að skerpa betur á svarinu að því er varðar táknmálstúlkunina og umbúnaðinn um þá þjónustu. Í fyrsta lagi hjó ég eftir því að hæstv. ráðherra nefndi að móta þyrfti málefnalega reglu um veitingu þjónustunnar og vísaði þá í nefndarstarf, eins og ég skildi hann, sem stæði yfir um að móta slíka reglu um veitingu velferðarþjónustu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann skilur og hvort hann gerir greinarmun á almennri velferðarþjónustu annars vegar og hins vegar þjónustu sem varðar réttinn til að nota táknmál í daglegu lífi sem móðurmál á grundvelli laganna um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hans, liggur mér við að segja, pólitíska og siðferðilega skilning á þessu máli.

Í öðru lagi vil ég spyrja, af því að hæstv. ráðherra svaraði því til um aldarafmælissjóðinn að hann lægi núna inni í liðnum, þ.e. talan væri ekki sýnileg per se heldur væri hún undir háskólaliðnum, þá vil ég biðja hann um að svara mér skýrar um framtíðarsýn sína um sjóðinn sem slíkan. Mér fannst hann aðeins láta að því liggja að sjóðurinn sem slíkur væri kannski ekki til í hans huga að afloknu næsta fjárlagaári heldur væri þá almennt verið að tala um að styrkja rannsóknir og þróun innan háskólastigsins. Ég bið um skýrari svör hvað þetta varðar.

Svo vil ég líka spyrja um stefnumörkun og framtíðarsýn varðandi það sem gárungarnir kalla „holu“ íslenskra fræða.