145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi túlkasjóðinn þá hvíldi sá dómur sem féll í sumar, sem við ræddum hér, ég og hv. þingmaður, á túlkun á a-lið 76. gr. stjórnarskrárinnar sem snýr að velferðarþjónustu. Við því þarf að bregðast sérstaklega vegna þess að á grundvelli þeirrar þjónustu er réttur. Aftur á móti vakti athygli mína að ekki var vísað til b-liðarins sem snýr að menntun. Það var í það minnsta athyglisverð nálgun dómsins.

Síðan er auðvitað hitt, hvað varðar réttinn til að nota tungumálið, þá hljótum við væntanlega að vera öll sammála um að við viljum sjá aukningu hér áfram inn í þennan sjóð. Ég vísa bara til ummæla forstöðumanns stofnunarinnar sem nefndi ákveðna tölu sem var hennar mat að þyrfti til þess að sjóðurinn gæti staðið í þeim verkefnum sem honum bæri. Sú tala kom fram og við í ríkisstjórninni brugðumst við með því að hækka framlagið sem því nam.

Hvað varðar framtíðarsýn varðandi aldarafmælissjóðinn er það svo að mínu mati og það sem skiptir mestu máli að Vísinda- og tækniráð, þar sem í situr fjöldi ráðherra úr ríkisstjórn á hverjum tíma, hefur mótað þá stefnu að íslenska háskólastigið eigi á næstu árum að ná að fjármagna það til jafns við það sem við sjáum til dæmis gert annars staðar á Norðurlöndum. Horft er til ársins 2020, ef ég man rétt, hvað það varðar. Ég held að við verðum að nálgast þetta heildstætt, þ.e. við getum ekki tekið eina háskólastofnun og sagt að við ætlum að lyfta henni á þann stað en ekki öðrum. Ég held að við verðum að gera það yfir alla línuna. Þessi sjóður hefur auðvitað hlutverk áfram og hefur sína stöðu, en ég held að sú aukning sem við verðum að fara í og er óhjákvæmilegt að ráðast í á næstu árum verði að koma í gegnum nálgunina. Ég held að það sé algjört lykilatriði.

Tími minn er á þrotum, virðulegi forseti.