145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sátt við að við séum kannski alltaf að horfa á styttingu framhaldsskólanámsins út frá krónum og aurum. Ég er alveg til í að horfa á það út frá því að verið sé að bæta við árið í starfsævi og út frá því að mögulega getur þetta gert að verkum að samtímis getum við gert framhaldsskólastigið sveigjanlegra, haldið fleirum við efnið og allt það, hin faglega hlið mála. Ég vil gjarnan skoða hana og hef viljað skoða hana og ég vil taka þá umræðu í þingsal en ekki að þetta fari allt saman af stað og við séum ekki búin að ræða þetta hér. Mér líður dálítið þannig gagnvart þessu máli að við séum alltaf að ræða þetta samhliða fjárlagavinnunni, sem mér þykir miður.

Annað sem ég vil líka nefna er að burt séð frá fjármunahliðinni sem ég spurði um í fyrri spurningu, þ.e. kostnaðarhliðina á því þegar svona stórar árgangar koma út eða tveir samhliða, þá getur það líka haft áhrif á þessa hópa hvað varðar áframhaldandi skólagöngu, þ.e. menntunarsögu þeirra. Það er alltaf bara ákveðinn fjöldi sem kemst inn á ákveðnar brautir í háskólanum eða ákveðin svið í framhaldsnámi eftir framhaldsskólann og það getur haft veruleg áhrif á þennan hóp. Ég held að við þurfum út frá faglegu hliðinni og menntunarmöguleikum þessa hóps að skoða það líka mjög vel vegna þess að þegar svona stór hópur kemur út úr framhaldsskólanum þá munu þessir einstaklingar ganga á sömu veggi þegar kemur að hámarksfjölda nemenda í ýmsar deildir sem margir láta sig dreyma um að sækja. Ég mundi gjarnan vilja að við ættum á næstunni einhvers konar samtal um það hvernig við tökum á þeim hluta, ekki bara kostnaðinum heldur líka hinni faglegu hlið málanna.