145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:52]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er ég að koma í ræðu, ekki í spurningar og svör við ráðherra. Þetta er búin að vera ágæt umræða, sérstaklega í dag. Það hefur margt skýrst en ég verð að segja að ég hef líka orðið fyrir býsna miklum vonbrigðum með ýmis svör frá ráðherrunum og kannski ekki síst viðhorfinu að baki þeim.

Við lögðum af stað í þessa umræðu með það yfir okkur að hér kynntu menn eða töldu sig kynna einhver mestu velferðarfjárlög allra tíma. Við höfum farið ágætlega í gegnum það hversu mikil öfugmæli það eru. Hvernig geta þetta verið velferðarfjárlög þegar skorið er niður til Landspítalans um 90 milljónir að raungildi? Hvernig geta það verið velferðarfjárlög? Hvernig geta það verið velferðarfjárlög þar sem ekki er gert ráð fyrir neinni aukningu S-merktra lyfja? Menn þekkja mjög vel dæmi um það hvernig Sjúkratryggingastofnun neitar fólki vegna fjárhagsramma um lyf sem gætu bætt lífsgæði þess verulega, t.d. við lifrarbólgu C svo ég nefni bara eitt dæmi. Þegar kemur að S-merktu lyfjunum þá erum við því miður líka í þeirri stöðu að Sjúkratryggingastofnun Íslands hefur tekið upp einhvers konar kvóta á það hversu margir geta fengið ákveðin lyf. Hvers konar velferðarsamfélag er það? Hvers konar velferðarfjárlög eru það þar sem ekkert er gefið í þegar kemur að þessum málum? Þetta eru slík öfugmæli, virðulegi forseti, að það hálfa hefði verið hellingur.

Ég ætla líka að nefna að við jafnaðarmenn höfum talað fyrir því að þegar búið er að taka ákvörðun og semja um það að lágmarkslaun í landinu verði eftir nokkur ár, þ.e. 2018, 300 þús. kr. þá beri að tryggja lífeyrisþegum hið sama. Þetta hlýtur að vera eðlileg krafa. Þetta var tekið ágætlega fyrir í gær í sjónvarpsfréttum; þar var ágætissamanburður á því hversu mikil gliðnun er að verða á milli lægstu launa og lífeyris í landinu. Þetta gengur auðvitað ekki og þess vegna höfum við jafnaðarmenn lagt fram tillögu til þingsályktunar, sem vonandi næst samstaða um á þessu þingi, um að breyta þessu þannig að þetta fylgist að. Það er skylda okkar og það er verkefni okkar sem hér erum að ráðstafa almannafé með þeim hætti að við tryggjum að hér sé rekið samfélag fólks sem býr við mannsæmandi kjör.

Ég verð líka að nefna aðra þætti og við höfum svo sem gert það hér í dag. Menn koma fram og segja að þeir séu með velferðarfjárlög með sérstaka áherslu á húsnæðismál. Hingað kemur ráðherra félags- og húsnæðismála og ber sér á brjóst og segist tala fyrir hönd ríkisstjórnar heimilanna. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þess sér ekki stað í þessu fjárlagafrumvarpi að þetta sé einhver sérstök ríkisstjórn heimilanna, hvað þá einhvers konar velferðarstjórn. Þegar menn ætla að ráðast í það litla verkefni, sem er sögulega pínulítið verkefni, að veita stofnstyrki sem munu stuðla að byggingu 400 íbúða upp á 1,5 milljarða þá eru þeir að taka það fjármagn — frá hverjum? — úr vaxtabótakerfinu, frá unga fólkinu sem keypti sér íbúð á árinu 2010 og til dagsins í dag, frá fólkinu sem er skuldum hlaðið, unga fólkinu sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Þaðan er verið að taka þetta — 1,5 milljarðar eru teknir úr vaxtabótakerfinu. Eru það velferðarfjárlög ríkisstjórnar heimilanna?

Hvernig rökstyðja menn það? Menn rökstyðja það með þessu: Jú, við réðumst hér í leiðréttingu húsnæðislána og það hefur valdið því að skuldir hafa lækkað og þar með vaxtabæturnar. Þetta gengur bara ekki upp. Það er rökvilla í þessum rökum. Ef rökin fyrir því að menn réðust hér í leiðréttingu voru þau að hér hafi orðið sérstakur forsendubrestur sem menn séu að leiðrétta, á slík leiðrétting þá að leggja niður vaxtabótakerfið? Það getur bara ekki verið. Vaxtabótakerfið hefur verið til að styðja við fólk sem er að kaupa sér húsnæði. Þá áttu menn bara að segja: Já, með leiðréttingunni ætlum við hægt og rólega að leggja niður vaxtabótakerfið og hætta með það. Það er það sem menn eru raunverulega að gera og það er það sem hefur komið fram í umræðunni að er í gangi. Menn bera þetta saman og segja: Já, við erum að leiðrétta húsnæðislán og þess vegna eru vaxtabæturnar að lækka og þess vegna ætlum við ekki að hækka nein viðmið í takt við breytingar í samfélaginu heldur láta vaxtabótaviðmiðin bara sitja eftir og ekki láta þau fylgja neinum takti. Þá eru menn að segja þetta, en þá er leiðréttingin ekki eingöngu til að leiðrétta einhvern forsendubrest eins og menn hafa skilgreint hana. Þá kemur leiðréttingin í staðinn fyrir vaxtabætur. Það er það sem menn eru að segja. Í staðinn fyrir að nota viðmið sem eru eignir og tekjur þá nota menn allt önnur viðmið eins og við þekkjum í leiðréttingunni. Stórir hópar munu ekki fá neitt eða hægt og rólega detta út úr vaxtabótakerfinu. Það er líklega planið miðað við það sem sagt hefur verið hér í dag. Þá eiga menn að koma heiðarlega fram og segja: Við ætlum að hætta stuðningi vegna húsnæðiskaupa í gegnum vaxtabótakerfið og þegar leiðréttingunni er lokið kemur ekkert í staðinn.

Virðulegi forseti. Mér finnst vanta dálítið, það er ægilegt skrautmælgi í gangi og menn segja svo margt, segjast vera ríkisstjórn heimilanna en gera svo bara eitthvað allt annað, segjast vera að leggja fram velferðarfjárlög en gera svo bara eitthvað allt annað. Mér finnst kominn tími til að þessi ríkisstjórn komi heiðarlega fram, standi keik sem hrein hægri stjórn sem reki hægri stefnu og leggi fram hægri fjárlög. Þá væri það bara skýrt.

Það er fleira sem við erum ósátt við, t.d. að það sem eiga að heita velferðarfjárlög, í þeim sé fæðingarorlofið að lækka, þ.e. framlag í Fæðingarorlofssjóð 221 milljón sem gerist af sömu ástæðu, að menn eru ekki að breyta neinum viðmiðum og þökum. Það veldur því að það verður lækkun. Ég verð að segja það alveg eins og er að hvað varðar Fæðingarorlofssjóð þá er það núna sem við þurfum að bæta í hann. Hann er orðin svo rýr að þeir sem taka nú orðið fæðingarorlof lenda í verulegum vandkvæðum meðan á því stendur. Við þurfum a.m.k. að láta þetta fylgja meðallaunum eða búa okkur til einhver almennileg viðmið. — Nei, það á bara að halda þessu frosnu áfram, það á ekki að breyta neinu. Það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar. Þetta er það sem menn segja að sér gert í svokölluðum velferðarfjárlögum.

Barnabæturnar eiga ekki að hækka neitt að raungildi.

Svo get ég líka nefnt að þriðja árið í röð halda menn niðri framkvæmdum í vegamálum. Framkvæmdir í vegamálum í dag eru fjórðungur af því sem þær voru á árinu 2008. Framkvæmdir í vegamálum í dag eru tæplega helmingur af því sem þær voru á árinu 2004. Það er sögulegt lágmark í gangi í nýframkvæmdum í vegamálum og samgöngum. Það er miður. Ég verð að segja líka, virðulegi forseti, að það er ekki bara miður heldur tel ég að það geti skaðað okkur allverulega vegna þess að hingað er að koma slíkur fjöldi ferðamanna að það er orðið stórkostlegt öryggismál að byggja upp vegakerfið og bæta það. Nei, þessi ríkisstjórn hefur ekki áhuga á því. Hún ætlar að bíða með það verkefni. Það er ekki hægt að bíða með það að eilífu. Það helst kannski í hendur við það að við höfum ekki séð neina einustu samgönguáætlun, það hefur engin samgönguáætlun farið hér í gegn. Kannski er ástæðan fyrir því að svona lítið er að koma til nýframkvæmda, það er ekkert að koma til nýframkvæmda annað en fé í verkefni sem samþykkt var að ráðast í í tíð síðustu ríkisstjórnar, einmitt sú að það er ekkert plan, það er engin áætlun og það er engin sýn. Ef menn hafa enga sýn, ef menn hafa enga áætlun og ef menn hafa ekkert plan þá er náttúrlega skiljanlegt að það komi ekkert fjármagn.