145. löggjafarþing — 4. fundur,  11. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:13]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Við erum að ljúka öðrum degi í 1. umr. um fjárlagafrumvarp næsta árs. Þetta hefur verið ágætisumræða, í gær var rætt um stóru póstana, skulum við segja, en í dag höfum við verið að ræða við fagráðherrana um málaflokkana. Það er dálítið sérstakt að taka þessa umræðu, 1. umr., um mörg hundruð síðna plagg sem þingmenn eru í raun og veru að lesa jafnóðum og umræðan fer fram. Þetta minnir mig dálítið á það sem fyrrverandi borgarstjóri, Jón Gnarr, orðaði svo ágætlega, að starfa í stjórnmálum væri stundum eins og að vera í leshóp sem fjallaði bara um stafsetningu.

Umræðan í dag hefur verið mjög góð og sem 1. umr. er hún auðvitað innlegg með frumvarpinu til nefndar. Það er gott að sjá að meðlimir fjárlaganefndar hafa fylgst vel með og taka umræðuna auðvitað með sér. En umræðan í dag hefur stundum farið niður í það, á mörg hundruð milljarða fjárlögum, að rætt er um fjárlagaliði sem eru kannski upp á 2 eða 6 milljónir, eitthvað svoleiðis, það er dálítið sérstök umræða um svona stórt mál.

Mér finnst erfitt að ræða málið án þess að taka aðeins á stóru póstunum vegna þess að fjárlagafrumvarpið og útdeiling fjármagns er náttúrlega bensínið í öllu opinbera kerfinu. Þegar við skiptum umræðunni um tekjuhliðina, þ.e. hvaða tekjur ríkissjóður fær, hvernig gjöldum og sköttum er háttað o.s.frv., og slítum hana svona í sundur, þó að það sé gagnlegt fyrir þingið og fjárlaganefndina, við útgjöldin og þjónustuna sem útgjöldin í raun og veru tákna, þá slitnar samhengið gjarnan á milli. Það sem við sjáum í fjárlögunum er að uppgangur er í samfélaginu og auknar tekjur eru, sem eru auðvitað mjög jákvæð merki eftir áralangan niðurskurð og vanda ríkissjóðs en ekki síður þeirra kerfa, þeirra málaflokka sem undir liggja í þjónustu ríkisins og ábyrgð ríkisins.

Fjárlögin lýsa náttúrlega forgangsröðun stjórnvalda, forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Það sem sést í tekjuhliðinni er ákveðin tilhneiging eða ákvörðun, forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að lækka tekjur með því að lækka skatta, með því að lækka til dæmis tolla, og auðvitað verður að tengja þá forgangsröðun við þá forgangsröðun sem sést í útgjöldunum. Það er auðvitað mjög jákvætt að sjá aukningu í ýmsum málaflokkum en þar sem áhyggjurnar koma upp og það sem við höfum heyrt í umræðunum í dag um málaflokkana og í umræðum við fagráðherrana er að mörg af okkar kerfum eru langsvelt, innviðirnir eru langsveltir og það er mjög leiðinlegt að sjá hvað lítið er sett í fjárfestingar, þær eru enn þá í lágmarki. Það verður kannski að horfa öðruvísi á þá spurningu en oft áður vegna þess að fjárfestingar hafa verið í svo miklu lágmarki lengi. Umræðan sem tók ansi mikinn tíma á síðasta þingi, á síðasta þingvetri, um stöðu heilbrigðiskerfisins og sérstaklega Landspítalans, sýndi að spurning er hvort sú innspýting sem þó er hér muni nægja.

Mig langar líka til að koma inn á það að við sjáum breytingar á skattumhverfinu. Boðað er að fækka skattþrepum í tekjuskatti úr þremur niður í tvö. Síðan erum við að horfa útgjaldamegin á aðra liði, eigum við að segja þar sem við erum að nota skattkerfið og bótakerfið sem jöfnunartæki. Það virðist halda áfram sú tilhneiging til þess að bótakerfið, samanber vaxtabótakerfið, bótakerfi til aldraðra og öryrkja, er ekki að rísa á sama hátt. Það heldur ekki sjó gagnvart tekjuhliðinni þannig að við erum að sjá þarna einhverja hreyfingu sem verður ánægjulegt að fylgjast með í umræðum í nefndinni og yfir í 2. umr.

Svo finnst mér full ástæða til að taka aðeins undir þær raddir sem maður hefur heyrt frá sveitarfélögunum. Sveitarfélagastigið eða sveitarfélögin á Íslandi eru ábyrg fyrir um það bil þriðjungi af opinberum útgjöldum á Íslandi. Þau eru ábyrg fyrir stórum hluta af almannaþjónustunni og þeirri þjónustu kannski sem fólk finnur gjarnan á eigin skinni, sem er fólkinu næst. Oft hefur sú umræða komið upp hvernig tekjuskipting er, ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar, að þá tekjuskiptingu þurfi að endurskoða reglulega. Við erum að sjá breytingar í tekjum ríkisins, þ.e. tekjur af mismunandi stofnum, þær eru að breytast. Við vitum að með uppgangi ferðaþjónustunnar koma tekjur af ferðaþjónustunni helst inn í gegnum virðisaukaskatt. Við vitum eftir mörg mögur ár að fjármagnstekjuskattur mun væntanlega halda áfram að rísa. Ég hvet því til þess að við skoðum betur hvernig þeim tekjum er skipt milli ríkis og sveitarfélaga, ekki vegna þess að sveitarfélögin séu einhver aðili úti í bæ sem eigi að knýja á um auknar fjárveitingar, heldur hvernig við skiptum niður fjárveitingunum sem standa síðan á bak við verkefnin, bak við þjónustuna við íbúana.

Ég vil annars þakka kærlega fyrir þessa umræðu, hún hefur verið mjög góð þó svo að hún sé auðvitað ekki tæmandi í 1. umr. Ég trúi því og treysti að fjárlaganefnd taki þessa umræðu með sér inn í vinnu nefndarinnar og ég óska henni góðra starfa.