145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

100 ára afmæli þingskapa.

[15:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Hv. alþingismenn. Áður en gengið verður til dagskrár vil ég greina frá því að í gær, 13. september, voru liðin 100 ár frá því að Alþingi setti sér þingsköp sem mörkuðu tímamót í starfsháttum Alþingis. Þetta voru fyrstu þingsköpin sem unnin voru af alþingismönnum sjálfstætt en þau þingsköp sem gilt höfðu fram til þess höfðu verið unnin á vegum danska stjórnarráðsins og síðar íslenska stjórnarráðsins.

Þingskapalögin frá 1915 eru meðal merkustu breytinga á þingsköpum Alþingis því að þau fólu í sér mikilvægar endurbætur á starfsháttum þingsins. Var með þeim lögum til dæmis tekið upp fast nefndakerfi á Alþingi, en fram til þess tíma var venja að skipa nefnd um hvert mál.

Þingnefndin sem vann að gerð þingskapanna var undir formennsku Guðmundar Björnsonar alþingismanns. Guðmundur tók að sér að rannsaka þingsköp annarra þjóða og búa málið í hendur þingnefndarinnar. Fram að þeim tíma höfðu þingsköp Alþingis tekið mið af þingsköpum danska ríkisþingsins en nú var horft til fleiri þinga og gætir þess í þingskapabreytingunum.

Vinnan við gerð hinna nýju þingskapa hvíldi að mestu leyti á herðum Guðmundar og hefur hann því verið kallaður höfundur þeirra. Í viðurkenningarskyni fyrir framlag sitt var Guðmundur kjörinn forseti efri deildar 1916 og í því embætti réð hann miklu um framkvæmd hinna nýju þingskapa. Guðmundur var endurkjörinn forseti deildarinnar til 1922 þegar hann lét af þingmennsku. Hann hafði þá setið á Alþingi í 18 ár.

Í tilefni 100 ára afmælis þingskapalaganna frá 1915 hefur málverki af Guðmundi Björnsyni verið komið fyrir í gamla efrideildarsalnum. Með því vill forsætisnefnd heiðra minningu Guðmundar og framlag hans til nútímastarfshátta á Alþingi. Málverkið er í eigu Landspítalans en spítalinn hefur góðfúslega lánað Alþingi það um tíma. Guðmundur var landlæknir í 25 ár samhliða þingmennsku.

Þeirra tímamóta sem fólust í þingskapabreytingunni 1915 er vert að minnast hér á Alþingi, svo og hins merka þingskörungs, Guðmundar Björnsonar.