145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

tekjutenging vaxta- og barnabóta.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það sem er óeðlilegt er að fólk með 200 þús. kr. í mánaðarlaun teljist vera með það miklar tekjur að barnabætur þess skerðist. Það sem er óeðlilegt er að fólk sem er á meðallaunum og tók húsnæðislán árið 2009 og gerði ráð fyrir að fá vaxtabætur áfram sé núna dottið út úr því kerfi, ekki vegna þess, eins og hæstv. ráðherra segir, að því sé að ganga svo miklu betur heldur vegna þess að skerðingarmörkin hafa ekki verið hreyfð frá árinu 2011.

Við erum í samkeppni við nágrannalöndin um fólkið okkar. Þar býðst fólki á meðaltekjum aðstoð frá hinu opinbera í formi barnabóta, í formi húsnæðisstuðnings og fólk þar býr líka við miklu lægri vaxtakjör. Það hefur einfaldlega verið samstaða um það hingað til að af hálfu hins opinbera sé, með vaxtabótum, niðurgreiddur kostnaður af hærra vaxtastigi á Íslandi en er í nágrannalöndunum. (Forseti hringir.) Það er athyglisvert að heyra frá hæstv. fjármálaráðherra að það sé yfirveguð stefna ríkisstjórnarinnar að skilja meðaltekjufólk eftir (Forseti hringir.) og hætta að styðja við það við húsnæðisöflun eða við uppeldi barna.