145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

tekjutenging vaxta- og barnabóta.

[15:13]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég gerði einmitt grein fyrir því hvernig við nýttum svigrúmið í barnabótakerfinu betur niður í lægri enda launastigans, það voru þær breytingar sem við gerðum síðast. Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að skerðingarmörkin ná mjög langt niður, en við höfum gert bragarbót á því á þessu kjörtímabili. Við höfum dregið úr skerðingum þarna neðst. Eftir sem áður erum við að nota um 10 milljarða í barnabótakerfinu.

Í vaxtamálunum og í húsnæðisstuðningi verð ég að ítreka það sem ég sagði áður: Það verður ekki slitið frá öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Ef við horfum til þeirra sem fjárfestu á árinu 2009 þá njóta þeir einmitt líka góðs af því fyrirkomulagi sem við höfum haft í séreignarsparnaðarkerfinu. Varðandi vexti á Íslandi þurfum við að finna leiðir til þess að ná þeim niður. Það er kannski næsta stóra áskorun okkar í efnahagsmálum að finna betri samstöðu við aðila vinnumarkaðarins til þess að byggja undir betri og meiri stöðugleika og þar með lægri vexti og verðbólgu.