145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

afgreiðslutími úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

[15:23]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að hafa í huga að í sárafáum tilfellum, a.m.k. hlutfallslega, kemur til kasta úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Yfirleitt eru hlutirnir nokkuð skýrir og stjórnvöld, þar á meðal ráðuneyti, reyna að svara fyrirspurnum eins fljótt og kostur er. Það eru þó einstaka dæmi þar sem upp koma álitamál sem geta þá væntanlega verið flókin og einhver tími farið í að meta en ég tek undir með hv. þingmanni, það væri mjög æskilegt að stytta þann tíma eins og kostur er. Ég tel reyndar að það eigi að vera hægt að gera það án verulega aukins fjármagns, það þurfi ekki endilega að stranda á því, en það er þó eitthvað sem er rétt að líta til þegar menn leitast við að stytta þennan tíma, þ.e. meta hvort það þurfi að bæta í þetta fjármagni.