145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

aðstoð við langveik börn.

[15:28]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir fyrirspurnina. Það er alveg ljóst eins og hv. þingmaður sagði að það er löngu tímabært að endurskoða umhverfi langveikra barna, barna með fötlun og þann stuðning sem foreldrar fá til að geta sinnt þeim.

Það var ástæðan fyrir því að ég skipaði sérstakan starfshóp um heildarendurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni. Sá hópur hefur fundað mjög reglulega og ég vonast til þess að fá fljótlega í vetur tillögur frá þeim um hvernig best sé að standa að þeim breytingum.

Ég hugaði sérstaklega að því að þar væru fulltrúar sem hefðu sjálfir reynslu af því að vera með langveik börn, væru foreldrar langveikra barna. Þá veit ég að þar er unnið af miklu kappi að því að skila mér tillögum.