145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lífeyrisgreiðslur og lágmarkslaun.

[15:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Vilji flokksþings framsóknarmanna var mjög skýr, á því samningstímabili sem núverandi kjarasamningar ná yfir eiga bætur að fylgja lágmarkslaunum og að loknu tímabilinu verða þær orðnar 300 þús. kr. Ef hv. þingmaður mundi kynna sér þá útreikninga sem liggja fyrir varðandi breytingar á bótaflokkum er, a.m.k. samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, verið að fylgja eftir frá og með áramótum þeim hækkunum varðandi grunntölur í bótakerfinu. Við sjáum þarna 9,4% hækkun á bótaflokkum, 11 milljarða sem eru að koma nýir inn í almannatryggingarnar. Við höfum að sjálfsögðu lagt áherslu á það að standa vörð um almannatryggingakerfið. Það er ekki hagræðingarkrafa á almannatryggingar, hvorki nú né á síðasta ári, þannig að þetta er fyllilega í samræmi við þær áherslur sem hafa verið hjá framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum.