145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

lífeyrisgreiðslur og lágmarkslaun.

[15:36]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum sammála um mikilvægi þess að bæta kjör lífeyrisþega. Það kemur skýrt fram í fjárlagafrumvarpinu, það kemur skýrt fram í þeim breytingum sem munu verða á bótaflokkunum frá og með áramótunum. Þar fylgjum við eftir því sem stendur um það hvernig á að hækka bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar. Þær breytingar sem hafa orðið á vinnumarkaðnum eru reiknaðar inn og bætur verða hærri en lágmarkslaunin þegar búið er að taka þessa tölu inn.

Síðan ítreka ég líka að þessi ríkisstjórn hefur svo sannarlega staðið vörð um almannatryggingakerfið. Eitt af því fyrsta sem hún gerði eftir að hún tók við völdum var að taka til baka þær skerðingar sem fyrri ríkisstjórn fór í á síðasta kjörtímabili og hafa fjölmargir lífeyrisþegar notið góðs af því. Hins vegar held ég að við getum þá öll verið sammála um það, við hv. þingmaður og aðrir þingmenn, að við munum síðan halda áfram að gera enn betur.