145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

blandaðar bardagaíþróttir.

82. mál
[15:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Blandaðar bardagaíþróttir eru ein af þeim íþróttagreinum sem við Íslendingar höfum náð langt í. Eins og allir vita eigum við þar afreksmenn í fremstu röð. Við erum hins vegar í þeirri sérkennilegu stöðu að viðkomandi einstaklingar geta keppt á flestum stöðum í heiminum — nema á Íslandi. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við förum yfir það hvernig best sé að haga umhverfinu til að þeir aðilar sem hafa áhuga á því að stunda þær íþróttir geti gert það sem best og öruggast. Þess vegna er þessi beiðni til komin og það verður að segjast eins og er að það er sérstakt að við sjáum hér einstaklinga sem vekja heimsathygli og geta keppt í grein sinni á mörgum stöðum en ekki á Íslandi.