145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[15:43]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi okkar þingmanna Samfylkingarinnar, frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem gerir ráð fyrir að lífeyrir ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega hækki í áföngum á næstu þremur árum, til samræmis við hækkanir samkvæmt kjarasamningum á liðnu vori.

Eins og þingheimi og alþjóð er kunnugt náðust almennir kjarasamningar síðasta vor sem fólu í sér umtalsverða hækkun lágmarkslauna. Sérstök ástæða var lögð á það, jafnt í kjarasamningum Starfsgreinasambandsins og Verslunarmannafélagsins, að hækka lægstu laun þannig að þau mundu í lok samningstímans nema 300 þús. kr.

Eins og þingheimi er kunnugt fela lög um almannatryggingar í sér reiknireglu um hækkun bóta almannatrygginga árlega þar sem annaðhvort skuli miðað við verðlag eða launaþróun. Í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir hækkun um næstu áramót til samræmis við vænta launaþróun á yfirstandandi ári.

Sú hækkun tekur mið af almennum kauphækkunum, ekki þeim hækkunum sem sérstaklega eru ákvarðaðar í kjarasamningum fyrir lægstu laun. Því mun sú staða verða uppi að bætur almannatrygginga munu fyrirsjáanlega dragast aftur úr lægstu launum á næstu árum.

Við gerum því þá tillögu í þessu frumvarpi að sérstakt ákvæði til bráðabirgða komi inn í lögin sem feli í sér hækkun bóta almannatrygginga til samræmis við ákvæði kjarasamninganna frá því í vor og að sú tímabundna regla gangi þá framar gildandi lagaákvæðum um verðlags- eða launauppbætur til handa lífeyrisþegum almannatrygginga.

Um rökstuðning vísast til þeirrar staðreyndar að um 10.685 lífeyrisþegar ná ekki viðmiðum um lágmarkslífeyri og fá þar af leiðandi sérstaka uppbót til framfærslu. Þar af eru um 4.200 ellilífeyrisþegar, 5.550 örorkulífeyrisþegar og 955 sem fá endurhæfingarlífeyri. Sá hópur býr við kröpp kjör en kannanir hafa leitt í ljós að 4% höfðu frestað lyfjakaupum — þ.e. í könnun meðal eldri borgara árið 2012 — á síðustu fimm árum, 7% sögðust hafa frestað læknisheimsókn og 14% hafa tíðar fjárhagsáhyggjur.

Í því kerfi sem við höfum útbúið í gildandi lögum er búinn til farvegur til að tryggja að kjaraþróun lífeyrisþega sé í samræmi við almenna kaupmáttarþróun í landinu eða verðlagsþróun, en þegar gerðir eru sérstakir kjarasamningar sem hafa það að markmiði að lyfta lægstu launum þá eru fyrir því fordæmi að ríkið láti slíka hækkun sérstaklega koma til framkvæmda umfram það sem leiðir af lagaskyldunni í 69. gr. laga um almannatryggingar.

Ég vísa þar sérstaklega til þess þegar ákveðið var vorið 2011, í kjölfar kjarasamninga sem þá voru gerðir og miðuðu að sérstakri hækkun lægstu launa, að hækka sérstaklega lágmarksbætur almannatrygginga. Þá var tekin sjálfstæð ákvörðun um að bæta í fjármagni til almannatrygginga til þess að gera lífeyrisþegum mögulegt að njóta sömu réttarbótar og aðrir á lágmarkslaunum hefðu notið.

Vert er líka að rifja það upp að með átaki árin 2007 og 2008 voru bætur almannatrygginga hækkaðar verulega þannig að lágmarksbætur færðust að lægstu launum. Áður hafði verið mikill munur þar á. Þessi kjarabót nýttist lífeyrisþegum áfram hrunárin því að þrátt fyrir gríðarlega erfitt ástand í ríkisfjármálum og mikla aðhaldskröfu voru grunnbætur almannatrygginga, lægstu bætur, aldrei skertar um eina einustu krónu. Þvert á móti var, eins og ég rakti hér áðan, árið 2011 sérstaklega bætt í með viðbótarframlögum til að tryggja að lágmarksbætur almannatrygginga gætu fylgt lágmarkslaunum.

Fyrir þessu frumvarpi eru síðan augljós siðferðileg rök. Ef það er orðin niðurstaða aðila vinnumarkaðarins og sammæli um það í samfélaginu að sérstakt átak þurfi að gera til hækkunar lægstu launa, vegna þess að þau séu ekki mannsæmandi að óbreyttu, þá eru auðvitað engin rök fyrir því að lífeyrisþegar, sem ekki geta unnið og aukið við tekjur sína vegna aldurs eða örorku, búi við lakari kjör en samfélagið er almennt sammála um að sé lágmark mannsæmandi kjara. Þvert á móti er það grundvallarskylda í siðuðu samfélagi að tryggja þeim sem ekki geta unnið fyrir sér sömu möguleika til að tryggja afkomu sína og þeim sem eru á lægstu launum.

Hafa ber í huga að fjöldi þeirra lífeyrisþega sem hér um ræðir er vissulega umtalsverður en hér háttar þannig til að lífeyrisþegar hafa ekki aðstæður til þess að bæta við tekjur sínar eða ávinna sér starfsreynslu eða þekkingu sem jafnaði leiðir til hærri launa. Þeir eiga því ekki val um það að bæta afkomu sína með frekari vinnu eða námi vegna þess að þeir, vegna aldurs eða örorku, hafa ekki starfsgetu.

Nokkuð hefur verið rætt um, og meðal annars af hálfu hæstv. fjármálaráðherra um daginn í umræðum um fjárlagafrumvarpið, að þetta frumvarp sýndi einhvers konar villuhugmyndir Samfylkingarinnar um bótavæðingu samfélagsins og drægi úr hvata til launavinnu. Þau ummæli hljóta að byggjast á einhverjum miklum misskilningi hæstv. fjármálaráðherra en ég held að rétt sé samt að víkja að honum hér.

Það er auðvitað ekki þannig að aldraðir eigi almennt kost á því að vinna sér inn tekjur umfram bætur almannatrygginga og það sem hver og einn á rétt á úr lífeyrissjóði. Ástæðan er ósköp einfaldlega sú að við búum við frekar ósveigjanlegan vinnumarkað hvað efri aldursmörk varðar, sérstaklega hjá hinu opinbera, og framboð starfa, hlutastarfa, fyrir aldraða er ekki mikið. Margt hefur verið rætt, ritað og gert á vettvangi hins opinbera til að reyna að greiða fyrir sveigjanlegum starfslokum og auka möguleika fólks á að vinna lengur en öllum ber saman um að þær aðstæður eru ekki uppi við í dag að almennt sé hægt að gera ráð fyrir þeim möguleika.

Hvað örorkulífeyrisþega varðar er það vissulega svo að mikilvægt er að ganga fram með þær breytingar sem oft hafa verið ræddar á fyrirkomulagi örorkumats þar sem frekar verði horft á hvað fólk getur en það sem fólk getur ekki, að bótakerfið yrði almennt endurhannað með það að markmiði að fólk mundi ekki lenda í jafn svæsnum skerðingum og nú er ef fólk gæti fengið störf við hæfi og þannig nýtt þá starfsgetu sem fyrir hendi er.

Vandi samfélagsins í dag er hins vegar sá að vinnumarkaðurinn er gríðarlega ósveigjanlegur og lítill skilningur á því að fólk geti verið með ólíka starfsgetu, hlutastörf eru sjaldgæf og almennt er miðað við að allir geti unnið 100% og helst gott betur. Ef menn vilja auka möguleika örorkulífeyrisþega á að vinna launavinnu að því marki sem starfsgeta þeirra leyfir hlýtur fyrsta málið á dagskrá að vera að ríkið og vinnuveitendur á almennum markaði sameinist um að bjóða hlutastörf þar sem fólk með skerta starfsgetu á raunverulega möguleika á að láta til sín taka og síðan að gerðar verði bráðnauðsynlegar breytingar á lífeyriskerfinu þannig að fólk sé ekki að tapa nærri 80 aurum af hverri krónu í skatt eða skerðingar.

Örorkulífeyrisþegi sem tekur hlutastarf til samræmis við starfsgetu þarf auðvitað að greiða fullan skatt af hverri unninni krónu en til viðbótar að þola skerðingu lífeyrisins sem nemur skerðingarmörkum upp á tæp 40%. Fyrir örorkulífeyrisþega — ef hægt væri að fá hlutastarf — er ávinningurinn af því lítill sem enginn vegna þess að langstærsti hluti teknanna fer þá í skatta eða skerðingar.

Ég held því að óþarfi sé að mála skrattann á vegginn af hálfu stjórnarliða í þessu máli. Hér er um að ræða réttlætismál sem er útfært með hógværum hætti, nákvæmlega í samræmi við ákvæði kjarasamninga. Það er ekki þannig að í því felist einhvers konar bótavæðing sem muni hafa einhver neikvæð samfélagsleg áhrif. Þvert á móti er samþykkt frumvarpsins í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem blessunarlega hefur verið ráðandi frá árinu 2007, um að lágmarkslaun séu á svipuðum stað og lágmarksbætur almannatrygginga, og tryggja með þeim hætti mannsæmandi framfærslu fyrir lífeyrisþega sem ekki hafa á öðru að byggja en því grundvallaröryggisneti sem felst í lágmarksbótum almannatrygginga.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég hvet til þess að málið fái góðan framgang í þingnefnd, hraðan framgang. Ég finn mikinn áhuga hagsmunasamtaka eldri borgara og öryrkja á framgangi þessa máls og djúpan skilning á því að hér er um mikilvægt réttlætismál að ræða, siðferðilegan prófstein, um það hvort við teljum að þeir borgarar séu jafn gildir samfélagsborgarar og aðrir. Það er einfaldlega ekki siðferðilega verjandi að láta annað gilda um lífeyrisþega, sem ekki hafa valið sér hlutskipti sitt og hafa ekki aðrar forsendur til að afla sér tekna en bótakerfi almannatrygginga, en gildir um fólk á almennum vinnumarkaði.

Ég hvet stjórnarmeirihlutann til að hugleiða þetta mál betur og dýpra. Það eru rík réttlætisrök fyrir því að þessi breyting verði að veruleika. Ég bind vonir við að frumvarpið komi til atkvæða sem fyrst enda skiptir máli að lífeyrisþegar njóti nú þegar kjarabóta til samræmis við þá sem eru á almennum vinnumarkaði. Þar er nú þegar um að ræða hækkun frá 1. maí á þessu ári sem hefur ekki verið mætt með sama hætti hjá lífeyrisþegum.