145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[15:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Þar kom margt athyglisvert fram. Eins og hv. þingmaður veit hefur það verið forgangsmál hjá þessari ríkisstjórn að bæta í þennan málaflokk ásamt heilbrigðismálunum. Við sjáum náttúrlega gríðarlega aukningu þar. Það er vonandi samstaða um slíkt.

Ég vildi hins vegar spyrja aðeins út í þessa tillögu hér, í fyrsta lagi hvort kostnaðurinn af henni hafi ekki verið metinn. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef er kostnaðurinn við þessa breytingu um 30–40 milljarðar ef hún verður samþykkt. Fram til þessa hafa menn notað tryggingagjaldið til að fjármagna þennan þátt mála. Í það minnsta er það markmiðið og þá væri gott að heyra í hv. þingmanni hvernig þetta yrði fjármagnað, hvort hugmyndin væri þá sú að hækka tryggingagjaldið sem ég tel að vísu að við ættum lækka af augljósum ástæðum.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um þetta og nota tækifærið til að taka undir orð hans þegar hann talar um ósveigjanlegan vinnumarkað og sömuleiðis hvað það er lítill skilningur gagnvart fólki sem er komið yfir miðjan aldur. Það er óskiljanlegt viðhorf atvinnurekanda gagnvart þessu fólki sem hefur mjög mikið fram að færa. Mjög margir sem ég þekki vilja vinna en eiga af einhverjum óskiljanlegum orsökum eiga erfitt með að fá störf þó að ástandið í efnahagslífinu sé eins og við þekkjum.

Spurningin er: Hver er kostnaðurinn á bak við þetta, er hann ekki 30–40 milljarðar? Og hvaða áhrif mundi þetta hafa á tryggingagjaldið?