145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér svolítið á óvart að ekki sé búið að kostnaðarmeta þetta betur af tillöguflytjendum, en við höfum þá tölu, það bil sem mér heyrist að hv. þingmaður telji að kostnaður liggi á, þ.e. 30–40 milljarðar. Það er bara sama, tryggingagjaldið er bara ein tegund af þessum sköttum. Engir skattar eða gjöld koma af himnum ofan. Ríkissjóður ákveður það allt saman. Til þess að fjármagna þetta þurfum við auknar skatttekjur. Við fáum engar himnasendingar í því efni, skattar leggjast annaðhvort á fólk eða fyrirtæki og stundum á hvort tveggja. Það veldur mér hins vegar áhyggjum því að ég var að vonast til þess, burt séð frá efni allra mála, að menn vildu frekar hafa meiri afgang í ríkissjóði en bara að núlla út, eins og skilja mátti á orðum hv. þingmanns. Hann talaði um að 15 milljarðarnir mundu alveg örugglega duga. Það mundi þýða að það væri enginn afgangur á ríkissjóði.

Ef það er viðhorf hv. þingmanna í stjórnarandstöðunni að við eigum ekki að hafa neinn afgang af ríkissjóði er það alveg á skjön við þann hugsanagang sem er í þeim löndum sem við berum okkur saman við og vísa ég þá sérstaklega til Norðurlandanna sem við fylgjumst kannski best með. Þau vilja hafa afgang af fjárlögum. Við erum í þeirri stöðu núna á þessu ári að vaxtagreiðslur ríkissjóðs eru svo miklar að það eru hærri upphæðir sem en nemur öllum framlögum til Landspítalans og öllum framlögum til Sjúkratrygginga samanlagt. Þegar við erum með svona háan vaxtakostnað skerðum við með skipulegum hætti lífskjör barnanna okkar og barnabarnanna okkar. Það veldur mér áhyggjum bæði hvað lítið hefur verið kostnaðarmetið í þessu og hvað lítið er búið að hugsa fyrir fjármögnun þessa. Þó veldur það mér mestum áhyggjum (Forseti hringir.) að ekki sé samstaða um að hafa afgang af rekstri ríkissjóðs. Ég hefði viljað sjá hann meiri.