145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:18]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að við séum hér að ræða eitt mikilvægasta mál þessa vetrar. Samstaða hefur náðst um að lágmarkslaun í landinu verði 300 þús. kr. og okkur þótti sjálfsagt að taka undir þá kröfu. Hvers vegna fannst okkur það sjálfsagt? Vegna þess að vitum öll að það er varla hægt að lifa á þeirri upphæð í íslensku samfélagi, við skulum bara tala um það eins og það er. Við þekkjum það öll hér inni á eigin skinni, við vitum hvernig verðlagið er á húsnæði, mat og öðrum nauðsynjum. 300 þús. kr. duga varla til þess.

Þess vegna svíður auðvitað þegar í ljós kemur að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að tryggja að ýmsir hópar fái sambærilegar hækkanir. Það er ekki hægt að skilja þá hópa eftir í þessu samhengi, það er ekki hægt að skilja þessa hópa eftir í fátæktargildru og láta þetta bil verða breiðara en það er nú þegar.

Við sáum ágætlega í fréttatíma nýverið hver þróunin yrði ef við færum leið ríkisstjórnarinnar hvað þetta varðar. Hún er ekki ásættanleg, hún er okkur sem hér erum ekki til sóma. Verkefni okkar er að hluta til að reka samfélag. Hvers konar samfélag er það sem skilur stóra hópa öryrkja og eldri borgara eftir í fátæktargildru? Það er ekki samfélag sem hugnast okkur jafnaðarmönnum. Þess vegna leggjum við fram þetta frumvarp.

Mér fannst áhugavert að heyra varaformann fjárlaganefndar nálgast allt þetta mál út frá kostnaði fyrir ríkið og ræða brúttótölur, þ.e. taka ekki tillit til þeirra lögbundnu hækkana sem verða o.s.frv. Þegar viðkomandi er talsmaður ríkisstjórnar sem markvisst hefur afsalað sér tekjum upp á annað eins og meira á undanförnum árum, það sem af er þessu kjörtímabili, er þetta beinlínis orðið þannig að þarna liggur munurinn á okkur og þeim, hvernig við mundum haga rekstri ríkisins og hvernig þeir gera það.

Ég ætla samt að segja alveg eins og er að ég vona að málflutningur okkar í þinginu og líka hin sjálfsagða krafa og barátta þessara hópa í samfélaginu verði til þess að menn sjái að sér og að okkur takist að ná saman um breytingar við afgreiðslu fjárlaga og síðan að ná saman um þær hækkanir sem þurfa að verða á komandi árum.

Margir hjóla líka í okkur samfylkingarfólk og segja: Þið voruð í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og skáruð niður til þessara hópa.

Já, í efnahagslegri neyð síðasta kjörtímabils, með 216 milljarða gati á ríkissjóði, þurfti að grípa til margvíslegra aðgerða. Þessir hópar, lægstu tekjuhóparnir, voru samt varðir og skerðingarnar komu ekki inn fyrr en við meðaltekjur í samfélaginu. Auðvitað hefðum við viljað komast hjá því, en hjá því varð ekki komist. Þegar við erum komin yfir núllið er þess vegna svo mikilvægt að þessir hópar fái fyrstir til baka, það skiptir máli að við náum saman um það.

Virðulegi forseti. Ég minni líka á að þegar ríkisstjórnin gerði breytingar á síðasta ári á lífeyrisgreiðslum fengu tekjulægstu hóparnir ekkert. Það var byggt á því að fyrri ríkisstjórn hefði gætt að þeim hópi. Margt sem er sagt og gert í þessari umræðu tel ég ekki til bóta. Við ættum frekar að reyna að horfa á hvar við erum stödd núna. Núna erum við stödd árið 2015 með ríkissjóð sem er að mestu í lagi, fyrir utan auðvitað skuldirnar en við erum sammála um að greiða þær niður, með stöðuna þannig að við sjáum fram á aukinn hagvöxt. Auðvitað eigum við þá að ná saman um að skila tekjuhækkun til þessara hópa.

Ef menn skoða aðeins greinargerð með frumvarpinu sjá þeir þar mikilvægar staðreyndir, t.d. þá sem hv. þm. Árni Páll Árnason fór yfir áðan, að tæplega 11 þús. lífeyrisþegar ná ekki viðmiðum um lágmarkslífeyri og fá sérstaka uppbót til framfærslu. Þetta er gríðarlega stór hópur. Þetta eru meðal annars yfir 4 þús. eldri borgarar, ellilífeyrisþegar, og yfir 5.500 örorkulífeyrisþegar. Þetta er gríðarlega stór hópur fólks og það skiptir máli að við búum sómasamlega að honum.

Ég ætla að taka dæmi sem ég hef áður tekið hér af því hvað við í þessum sal tökum ákvarðanir um. Við erum að taka ákvörðun um að láta Íslendinga á ákveðnum aldri eða sem búa við skerta starfsgetu lifa á 190 þús. kr. eftir skatt, fólk sem býr eitt og þarf að reka sig. Getur einhver hér inni sagt mér að hann geti lifað á því? Það er ekki hægt. Þetta er dæmi um eldri borgara sem fær eingöngu tekjur frá Tryggingastofnun. Ef hann fær líka eitthvað úr lífeyrissjóði, tökum sem dæmi einn sem fær 85 þús. kr. úr lífeyrissjóði og afganginn frá Tryggingastofnun, fær hann kannski 217 þús. kr. eftir skatt. Það er ekkert mikið betra. Er einhver hér inni sem treystir sér til að lifa á 217 þús. kr., reka sitt heimili og allt sem því fylgir? Það held ég ekki.

Á þessu erum við að vekja athygli og það er þetta sem við tökum undir að þurfi að laga.

Virðulegi forseti. Þær tölur sem koma fram í þessu frumvarpi eru afar áhugaverðar. Það er líka ákveðin kynjaskipting, konurnar virðast vera í sérstökum áhættuhópi, í hópi þeirra sem lakast standa. Það þykja mér afar áhugaverðar upplýsingar. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra svaraði áðan óundirbúinni fyrirspurn hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur um nákvæmlega þessi mál á þann veg að fullyrða að hækkunin um næstu áramót næði hækkun lágmarkslauna.

Það er ekki hægt að bjóða okkur upp á svona villandi málflutning. Þetta er rétt að vissu leyti en aðeins í fjóra mánuði. 1. maí kemur önnur hækkun lágmarkslauna og þá dragast lífeyrisþegar aftur aftur úr. Við erum að tala um að breyta þessu og frumvarpið gengur út á að þessir hópar fylgi þróuninni í lágmarkslaunum. Það hlýtur að vera eðlileg krafa og ég trúi ekki öðru en að við náum saman um það hér í vetur. Við munum leggja okkur fram um að reyna að ná slíkri niðurstöðu hér og ég veit að aðrir þingflokkar hér inni eru okkur sammála um það.

Ég vil nefna nokkur atriði í lokin. Við vinnslu þessa máls í nefnd skiptir líka máli að skoða samspilið, að menn standi jafnfætis, hvort sem þeir fá blandaðar greiðslur frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun eða bara frá Tryggingastofnun. Það þarf að tryggja að hinir sitji ekki eftir, þeir sem fá blandaðar greiðslur, greiðslur úr báðum áttum, og það þarf að fara vandlega yfir þetta mál. Það er flókið eins og komið hefur fram. Það er ekki ætlunin. Ætlunin er að hífa þetta allt saman upp þannig að lágmarkið verði þessar upphæðir.

Ég tek að lokum undir með og þakka hv. þm. Freyju Haraldsdóttur fyrir tölu sína. Hún var fræðandi og upplýsandi á sama tíma og hún var rammpólitísk. Ég tek svo innilega undir með hv. þingmanni þegar hún segir að við eigum ekki að byggja kerfi í kringum örfáa svindlara. Það er ekki það sem kerfið á að snúast um, kerfið á að snúast um fólkið sem þarf að nota það og við erum að smíða það utan um. Við þurfum að hafa það í huga. Mér finnst tilhneigingin svo oft vera sú að menn reisi alltaf girðingar til vonar og vara. Látum það þá bara koma í ljós en horfum frekar á kerfið út frá þeim sem þurfa á því að halda.

Mér fannst líka áhugavert sem hún sagði um málefni fatlaðs fólks og vinnumarkaðarins. Mér finnst við þurfa að skoða það betur. Það er nokkuð sem ég held að við ættum líka að ræða betur hér, skerðingarnar. Möguleikar fatlaðs fólks til atvinnuþátttöku eru of litlir og við þurfum að fara vandlega yfir það mál.

Annað mál sem tengist eldri borgurum er búsetumál. Ég held að við í þinginu þurfum að fara að horfast í augu við það. Þetta er stór hópur og gríðarlega fjölbreyttur, með ólíkar tekjur, ólíkar þarfir og ólíkan bakgrunn. Það er að verða býsna stór hópur sem kemst til dæmis ekki inn í þjónustuíbúðir vegna þess að þær kosta mikið. Það er dýrt að búa í þjónustuíbúð. Svo deila menn líka um skilgreininguna á þjónustuíbúð.

Það er alltaf verið að kalla eftir því að við í þinginu náum saman um ákveðin mál og hættum að vera í skotgröfum. Ég vona að þessi málaflokkur nái okkur upp úr skotgröfunum og fái okkur til að fara að tala um það sem raunverulega skiptir máli í samfélaginu, lífskjör fólks. Þau lífskjör sem ég hef hér lýst eru ekki fullnægjandi, þau eru ekki mannsæmandi. Það er svo einfalt og þess vegna leggjum við þetta mál fram og leggjum jafn mikla áherslu og raun ber vitni á að það nái fram að ganga.