145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[16:51]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna að sjálfsögðu framlagningu þessa frumvarps enda er ég einn af flutningsmönnum þess. Við í Samfylkingunni teljum mjög mikilvægt að fólk sem hefur framfærslu sína að öllu eða einhverju leyti af lífeyri almannatrygginga njóti sömu hækkana og voru tryggðar í kjarasamningum sl. vor. Ríkisstjórnin ætlar ekki að fylgja þeirri reglu sem var til dæmis viðhöfð hér um mitt ár árið 2011 við mjög erfiðar aðstæður í ríkisfjármálum. Þá var því fylgt að greiðslur almannatrygginga hækkuðu til samræmis við kjarasamninga og krónutöluhækkunina sem þeir lægst launuðu fengu í þeim kjarasamningum.

Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Þetta er náttúrlega of flókið kerfi. Það er niðurlægjandi fyrir fólk sem nýtur almannatrygginga að vita aldrei almennilega hver réttur þess er vegna tekjutenginga og skerðinga. Það er til vansa að félags- og húsnæðismálaráðherra hafi ekki klárað vinnuna sem búin var og endurflutt frumvarpið frá fyrra tímabili, sem var þverpólitísk samstaða um, heldur hafið alla vinnuna að nýju. Nú tveimur árum síðar er búið að skila nákvæmlega sömu niðurstöðu. Það er búið að tefja það um tvö ár að bæta kjör lífeyrisþega; ríkisstjórnin sem lofaði fullum leiðréttingum í kosningabaráttunni. Það er svo langt frá því að það hafi verið uppfyllt.

Því skal haldið til haga að þessi ríkisstjórn afnam tekjutengingu við lífeyristekjur vegna grunnlífeyris en aðrar breytingar sem hafa orðið eru vegna þess að bráðabirgðaákvæði sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti í lög runnu sitt skeið. Aðrar breytingar sem hefði þurft að lagfæra hafa ekki verið gerðar, sem varða krónu á móti krónu, og ég kem inn á það aðeins síðar í máli mínu.

Það sem við í Samfylkingunni viljum er að lífeyrisþegar fái hækkanir frá sama tíma og kjarasamningar gilda, frá 1. maí 2015, og að sú hækkun fari upp í 245 þús. kr. á mánuði. Ríkisstjórnin ætlar að snuða lífeyrisþega um þessar hækkanir og skeikar þar heilum átta mánuðum. Við viljum síðan að þær hækki að nýju 1. maí og verði þá 260 þús. kr. á mánuði og að þær hækki aftur 1. maí 2017 og síðan 2018 og verði þá 300 þús. rétt eins og lágmarkslaun. Það er skýr krafa bæði Landssambands eldri borgara og Öryrkjabandalagsins að félagsmenn séu ekki meðhöndlaðir sem annars flokks þegnar í íslensku samfélagi. Þegar mánaðarlegar greiðslur eru svo lágar þá munar mjög um 15 þús. kr. á mánuði í átta mánuði, sem verið er að taka af fólki með því að leyfa greiðslunum ekki að fylgja kjarasamningum.

Varðandi krónu á móti krónu-skerðingunum sem átti að afnema í nýju kerfi almannatrygginga, sem ríkisstjórnin hefur leyft sér að draga í tvö ár að verði að veruleika, þá á enn eftir að setja nýjar hugmyndir í frumvarpsform. Mér finnst ekki ólíklegt að það verði ekki fyrr en á næsta ári að við sjáum frumvarp. Ég vona að ég hafi ekki rétt fyrir mér en miðað við seinaganginn á öllu sem varðar umbætur hjá ríkisstjórninni þá kæmi mér það verulega á óvart ef hún hefði drift í sér til að gera eitthvað að gagni varðandi þessi mál. Það er helst að hún geti skapað til ófriðar án lítils fyrirvara.

Árið 2009 var innleiddur nýr bótaflokkur ofan á almannatryggingar sem var sérstök framfærsluuppbót. Það munaði umtalsvert um það fyrir þá sem nutu engra annarra greiðslna en almannatrygginga. Það er óhætt að segja að sú hækkun sem varð hafi skipt sköpum fyrir kjör lífeyrisþega eftir hrunið. Tryggt var að þessi uppbót hækkaði í gegnum árin í kjölfar hrunsins þegar hér var niðurskurður, en á móti kom að á einhverjum tímum var tekjutryggingin ekki hækkuð. Núna þegar ríkissjóður hefur hætt við auðlegðarskatt, lækkað veiðigjöld, lækkað tekjuskatt, ekki síst á þá hæst launuðu og aukið skattheimtu sína í gegnum matarskatt þá er full ástæða til að lagfæra þetta. Það er ekkert vandamál með tekjur ríkissjóðs. Það gengur mjög vel og þær streyma inn. Það er pólitísk forgangsröðun sem ræður því hvernig þeim er deilt á fjárlagaliði.

Það þarf að tryggja að hlutdeild sérstöku framfærsluuppbótarinnar byrji að minnka í samræmi við þá kerfisbreytingu sem við ætlum út í og að tekjutryggingin hækki umfram annað sem og grunnlífeyririnn. Við þurfum að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hversu háan við viljum hafa grunnlífeyrinn sem við viljum að allir njóti, að allir sem eiga rétt á greiðslum úr almannatryggingum njóti grunnlífeyrisins sem er það sem fólk fær greitt úr kerfinu óháð því hverjar tekjur þess eru aðrar því að þetta er kerfi sem við eigum öll saman. Síðan er það tekjutryggingin sem á að vera berandi hluti kerfisins og tryggja fólki framfærslu. Sá hluti þarf að hækka en ekki sérstaka framfærsluuppbótin. Það er óþægilegt í bandorminum frá ríkisstjórninni að þar er ekkert sagt hvernig eigi að hækka lífeyrinn í samræmi við það sem kveðið er á um í fjárlagafrumvarpinu heldur er bara farið eftir greininni, að það séu fjárlög sem ákveði það hvernig tryggingarnar hækki. Þá er auðvitað ódýrast fyrir ríkissjóð að hækka sérstöku framfærsluuppbótina þó að það sé verst fyrir lífeyrisþega. Það finnst mér bagalegt og ég mun leita eftir upplýsingum um það hvernig hugmyndin er að láta þessar hækkanir koma fram.

Það má segja að þótt frumvarp okkar í Samfylkingunni sé mun framsæknara en tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum fjárlögum og ríkisstjórnin vilji ekki binda sig til frambúðar við loforð til lífeyrisþega, þó að það sé sjálfsögð krafa í kjölfar kjarasamninga, þá hlýt ég að líta svo á að miðað við hástemmd loforð ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar séu þeir tilbúnir til að endurskoða afstöðu sína til hækkunar almannatrygginga og tilbúnir til að gera það þannig að það komi öllum til góða. Annars munu margir lífeyrisþegar, allt að ¾ lífeyrisþega, yfir 40 þúsund manns, ekki fá hækkun sem nemur því sem kveðið er á um í fjárlögunum því að sérstaka framfærsluuppbótin hækkar umfram aðrar bætur. Það er næstum því erfitt að tala um þetta hér, herra forseti, því að þetta er svo snúið kerfi en það segir okkur líka það að ef ekki er sagt með skýrum orðum hverjar fyrirætlanirnar eru og hvernig á að standa að þessum hækkunum þá er hætta á að hægt sé að kveða á um að það eigi að hækka bætur svo og svo mikið en í raun sé hækkunin mun minni því að megnið af hópnum fái ekki hækkanir til samræmis við loforðin. Það verður okkar í stjórnarandstöðunni að fylgja því eftir að ríkisstjórnarflokkarnir komist ekki upp með að plata fólk og segjast ætla að gera eitthvað fyrir kosningar sem þeir eru síðan ekki tilbúnir til að fylgja eftir eftir kosningar.

Bæði Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalag Íslands eru mjög ákveðin í baráttu sinni fyrir því réttlætismáli að ákvæðið verði afturvirkt. Við í Samfylkingunni ætlum að leggja það sem við getum í þá baráttu og standa með þeim í þeirri baráttu því að þetta er réttlætismál. Það verður ekki við það unað að tekin sé ákvörðun um það í sölum Alþingis að það eigi að auka ójöfnuð í samfélaginu. Fyrirheit ríkisstjórnarinnar samkvæmt fjárlögum eru á þá leið. Við mótmælum því og munum nota þetta frumvarp til að snúa af þeirri leið.