145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[17:03]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Til umræðu er þskj. 3, mál nr. 3, þ.e. fyrsta mál á eftir fjárlögum og svokölluðum bandormi, sem fjármálaráðherra flytur líka, sem eru alltaf fyrstu mál þingsins. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, sem allur þingflokkur Samfylkingarinnar flytur sem sitt fyrsta aðalmál. Frumvarpið er einfaldlega þannig að við ákvæði til bráðabirgða í lögum um almannatryggingar bætist nýr töluliður um að þær umsömdu kjarabætur sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu nýlega um hækkun lægstu launa, þ.e. 8,86% frá 1. maí sl., 6,12% 1. maí 2016 og 7,14% 1. maí 2017, sem á að gera það að verkum að lægstu laun hækka upp í 300 þús. kr., verði líka látnar gilda um elli- og örorkulífeyri almannatrygginga hér á landi. Þetta er auðvitað mikið sanngirnismál.

Það sem vekur athygli mína við þessa umræðu er fjarvera stjórnarliða, þ.e. sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, ef undan eru skilin tvö andsvör frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem er varaformaður fjárlaganefndar, sem kom með þá spurningu til 1. flutningsmanns þessa frumvarps, þ.e. formanns Samfylkingarinnar, Árna Páls Árnasonar, hvort við hefðum látið reikna það út hvað þetta mundi kosta. Ég vil ekki nota það orð að hækkun á elli- og örorkulífeyri kosti ríkissjóð eitthvað, þetta eru einfaldlega hækkanir sem verða út frá því að gert var átak hjá aðilum vinnumarkaðarins til að hækka lægstu laun á markaði á Íslandi, sanngirnismál. Eitt það versta sem varð til í þessu þjóðfélagi eru lægstu laun og smánarlegar bætur elli- og örorkulífeyrisþega.

Af hverju var verið að semja um eins miklar hækkanir og raun ber vitni? Af hverju koma út úr Kjaradómi hækkanir um allt að 35% sem einhverjir hafa reiknað út fyrir tiltekna aðila sem þurftu að hætta að semja um kjör sín sjálfir og setja sig undir lög frá Alþingi um að Kjaradómur skyldi ákvarða laun þeirra? Það er vegna þess, virðulegi forseti, að við erum enn og munum áfram á næstu árum reyna að breyta launakerfinu í landinu, sama hvort það eru lægstu laun eða elli- og örorkulífeyrir, í takt við það og í framhaldi af því sem gerðist hér 2008 þegar varð algert gengishrun. Gjaldmiðillinn hrundi í raun og veru og innfluttar vörur hækkuðu mikið sem fór auðvitað þráðbeint út í verðlagið. Almenningur í landinu er þar af leiðandi að borga miklu hærra verð fyrir innfluttar vörur. Svo fer þetta út í annað eins og gengur og gerist í innflutningsháðu landi eins og Íslandi. Þannig hefur þetta farið um allt efnahagskerfið en þessir þættir hafa setið eftir.

Ég ætla að segja það enn einu sinni úr ræðustól á Alþingi að auðvitað var það ekki með glöðu geði sem við sem stóðum að síðustu ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili fórum í að hækka skatta, skera niður og setja inn ýmsar skerðingar á elli- og örorkulífeyri almannatrygginga. Það var ekki með neinu glöðu geði gert. Þess vegna sögðum við það líka að um leið og betur áraði og við mundum fara að reisa okkur upp úr þeirri miklu kreppu og því mikla áfalli sem varð þá ætti að skila þessu strax til baka. Þetta frumvarp er einmitt flutt af illri nauðsyn, m.a. vegna þess að núverandi ríkisstjórnarflokkar ætla sér ekki að standa við það.

Af hverju er elli- og örorkulífeyrir ekki hækkaður frá 1. maí 2015 eins og aðilar vinnumarkaðarins sömdu um með lægstu laun? Af hverju kemur það fyrst til gildistöku 1. janúar nk.? Ég hygg að það sé vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafa ákveðið að „spara sér“ þá upphæð. Mér finnst svo sárt að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn mæta ekki í þessa umræðu vegna þess að ég hefði til dæmis spurt hvern einasta ræðumann úr þessum flokkum hvað þeir hefðu átt við með samþykktum flokksþinga sinna flokka árið 2013 rétt fyrir kosningar. Ég vísa þar, virðulegi forseti, í grein í Fréttablaðinu fyrir skömmu með yfirskriftinni „Óhreinu börnin á Íslandi“ sem Halldór Gunnarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Holti, skrifaði. Þar nefndi hann m.a., með leyfi forseta:

„Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2013 var samþykkt að kjaraskerðing aldraðra og öryrkja, sem tók gildi 1. júlí 2009, yrði afturkölluð og að lífeyrir aldraðra og öryrkja yrði hækkaður vegna kjaraskerðingar þeirra eftir hrun.“

Sjálfstæðisflokkurinn lét ekki sitt eftir liggja. Ég vek aftur athygli á því að þetta var rétt fyrir kosningar. Þar var samþykkt að sú kjaraskerðing sem eldri borgarar og öryrkjar urðu fyrir, þar var sagt 1. júní 2009, yrði tafarlaust afturkölluð og að leiðrétta ætti kjaragliðnun krepputímans. Það var ekki allt búið. Þetta voru samþykktir þessara tveggja landsfunda rétt fyrir kosningar. Sjálfstæðisflokkurinn sendi, að ég held, öllum eldri borgurum og öryrkjum þessa lands bréf þar sem sagði einfaldlega: „Við ætlum að afnema tekjutengingu ellilífeyris.“

Ég hika ekki við að halda því fram að þessar samþykktir og þau loforð sem þeir gáfu urðu til þess að margir ellilífeyrisþegar og margir örorkulífeyrisþegar studdu þessa flokka til valda vegna þessara loforða, sem þeir hafa svo svikið, alveg eins og ég hika ekki við að halda því fram að margir ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar sneru baki við þáverandi stjórnarflokkum, Samfylkingu og Vinstri grænum, vegna þeirra tekjuskerðinga sem við þurfum að ráðast í eftir hrun. Eins og ég hef sagt gerðum við það oft og tíðum með vont bragð í munni, að sjálfsögðu, en ég læt fylgja með að það var alltaf sagt að þegar betur áraði og ástandið færi að skána þá yrði þessu skilað og þess vegna er þessi tillaga flutt.

Ég ætla ekki að hætta mér út í frekari umfjöllun við 1. umr. málsins. Ég tek undir það sem hv. 7. þm. Suðvest., Freyja Haraldsdóttir, sagði hér áðan; kerfið er mjög flókið og það er erfitt að ræða það vegna ýmissa tekjutenginga og tekjuskerðinga. Þess vegna stendur meðal annars í þessari tillögu að samhliða þeim breytingum sem eru lagðar til þurfi að draga úr vægi tekjuskerðinga vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri, þ.e. króna á móti krónu, sem kveðið er á um í lögum um félagslega aðstoð. Margt fleira mætti nefna í þessu sambandi, en eins og ég segi þá ætla ég ekki að hætta mér út í það og hef ekki tíma til að fara yfir það lið fyrir lið. Ég vil bara segja stutt að áherslur jafnaðarmanna koma fram í þessu fyrsta þingmáli okkar og þess vegna er það lagt fram.

Mér varð í raun og veru frekar illt við að heyra að eina innleggið frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins væri að spyrja hvað pakkinn kostaði, ef svo má að orði komast.

Getur verið að það standi í fjárlögum núna að kostnaður ríkissjóðs vegna launahækkana, þar á meðal lægstu launa á næsta ári, verði 30–40 milljarðar kr.? Staðreyndin er sú að um það bil þriðjungur kemur til baka til ríkissjóðs í formi skatta þannig að nettó verða þetta kannski 20 milljarðar kr. Ég veit ekki hvort talan er rétt en mér er illa við að ræða þetta á þessum nótum, eins og ég gerði að umtalsefni hér áðan. Auðvitað fylgja þessu aukin útgjöld. Það er eins með aðila vinnumarkaðarins, fyrirtækja sem sömdu um hækkanir og ætla sér að hætta að greiða þau smánarlaun sem lægstu laun eru, og þess vegna er ráðist í þessar „svakalegu hækkanir“, sem verða það kannski ekkert eftir eitt ár eða svo, til að þokist upp í 300 þús. kr. fyrir 1. maí 2017.

Ég ítreka það sem ég sagði: Hérna erum við að ræða hækkanir sem eru afleiðingar af því að hér varð efnahagshrun, gjaldmiðillinn hrundi og allt hækkaði í takt við það. Það tekur okkur smátíma að leiðrétta þetta. Við gengishrun krónunnar fengu ákveðnar atvinnugreinar miklar og auknar tekjur út af hruni krónunnar. Þær fengju kannski meiri tekjur akkúrat þessa stundina ef Seðlabankinn væri ekki með eins mikil kaup á gjaldeyri og raun ber vitni þegar gjaldeyrir flæðir inn í landið vegna komu ferðamanna. Sennilega metur Seðlabankinn það svo að útflutningsatvinnugreinarnar þoli ekki frekari styrkingu krónunnar. Ég er sannfærður um að krónan eigi ekkert eftir að styrkjast neitt á næstu árum og þess vegna eigum við eftir að breyta okkar kerfi. Launþegar, ellilífeyrisþegar, örorkulífeyrisþegar og aðrir eiga eftir að fá hækkanir til samræmis við þetta. Þessi tillaga er í raun og veru ekkert annað en framhald af því að viðurkenna þessar staðreyndir. Síðan má tala um hvernig eigi að fjármagna pakkann. Hann verður auðvitað að fjármagna með þeim tekjum sem ríkissjóður hefur og menn taka ákvörðun um að deila þeim í þetta. Það verður þá ekki gert annað fyrir sömu krónur á meðan.

Ég minni á það hér í lokin að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa lagt af auðlegðarskatt og raforkuskatt. Veiðileyfagjöld hafa verið hækkuð, þó svo ég segi fyrir mitt leyti að það verði að huga að því þegar veiðileyfagjöld eru lögð á að auðvelt er að leggja á þá sem best eru settir í greininni en það gæti orðið erfitt fyrir þá minni. Það sama á í raun og veru við um tekjuskatt. Það er verið að boða lækkun tekjuskatts og þá minnka náttúrlega tekjurnar sem koma inn.

Menn verða að viðurkenna þær staðreyndir að við þurfum að hækka bætur elli- og örorkulífeyris til samræmis við það sem gerst hefur á hinum almenna markaði. Virðulegi forseti, þess vegna fagna ég því að þetta frumvarp skuli vera hér 3. mál þingsins. Þetta eru áhersluatriðin sem ég hélt að við gætum vonast til að allir væru sammála um.