145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

almannatryggingar.

3. mál
[17:23]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef yfirleitt nálgast mál hér þannig að þegar ræða þarf stór mál, sama hvort það eru útgjaldamál eða tekjumál, sé listin við það að semja sig að niðurstöðu, að stjórnmálaflokkar á Alþingi reyna að komast að niðurstöðu. Þannig hef ég oft talað til dæmis hvað varðar álagningu veiðigjalda og nákvæmlega það sem ég sagði þar á líka við um auðlegðarskattinn, það er ekki sama hvernig hann er útfærður. Hann á ekki að vera þannig útfærður, ég veit ekki hvernig ég á að koma orðum að því, að hann íþyngi mjög þeim sem minna hafa. Hann á að koma til þeirra sem hafa mikið, sem geta lagt meira til. Tökum dæmi um veiðigjöld. Það eru útgerðir sem sannarlega hafa getu og burði til þess að borga hátt veiðigjald en svo eru minni útgerðir sem geta það ekki og ef það leiðir til samþjöppunar er það ekki góð leið. Aðalatriðið er, virðulegi forseti, án þess að ég vilji vera að karpa við hv. þingmann um þetta: Getum við virkilega ekki náð samstöðu um að sú hækkun sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um komi líka til ellilífeyris- og örorkulífeyrisþega frá 1. maí síðastliðnum og sé greidd þar alveg eins og ríkissjóður greiðir það til þeirra sem eru með lægstu launin, það er samkomulag um að greiða það frá 1. maí? Af hverju er ekki hægt að gera það hér? Og ef við komumst að samkomulagi um það, stjórnmálaflokkar á Íslandi, þá eigum við líka að finna leið til þess að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs hvað það varðar.

Aðeins um það sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni í andsvari, hvað þessi pakki kostar. Það að það skuli ekki vera vitað og að velferðarráðuneytið geti ekki svarað því í dag sýnir auðvitað að ríkisstjórnarflokkarnir ætluðu sér aldrei að gera þetta frá og með 1. maí síðastliðnum.